Síðari Samúelsbók

1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24


Kafla 1

1 Eftir dauða Sáls, þá er Davíð var heim kominn og hafði unnið sigur á Amalekítum og hann hafði verið tvo daga um kyrrt í Siklag,
2 þá kom skyndilega þriðja daginn maður úr herbúðum Sáls. Var hann í rifnum klæðum og hafði ausið mold yfir höfuð sér. Og er hann kom til Davíðs, féll hann til jarðar og laut honum.
3 Og Davíð sagði við hann: "Hvaðan kemur þú?" Hann svaraði honum: "Ég komst undan úr herbúðum Ísraels."
4 Davíð sagði við hann: "Hvernig hefir gengið? Seg mér það." Hann svaraði: "Liðið er flúið úr orustunni, og margir úr liðinu eru líka fallnir og dauðir. Líka eru þeir Sál og Jónatan sonur hans dauðir."
5 Þá sagði Davíð við manninn, sem flutti honum tíðindin: "Hvernig veistu það, að þeir Sál og Jónatan sonur hans eru dauðir?"
6 Þá svaraði maðurinn, sem flutti honum tíðindin: "Alveg af tilviljun kom ég upp á Gilbóafjall. Þar hitti ég Sál. Studdist hann við spjót sitt, en vagnar og riddarar voru á hælum honum.
7 Hann sneri sér þá við, og er hann sá mig, kallaði hann á mig, og ég svaraði: ,Hér er ég.'
8 Og hann sagði við mig: ,Hver ert þú?' Ég svaraði: ,Ég er Amalekíti.'
9 Þá sagði hann við mig: ,Kom þú hingað til mín og deyð þú mig, því að mig sundlar, og þó er ég enn með fullu fjöri.'
10 Þá gekk ég til hans og vann á honum, því að ég vissi að hann gat ekki lifað eftir ófarir sínar. Tók ég kórónuna af höfði honum og hringinn af armlegg hans og færi ég þér nú, herra minn!"
11 Þá þreif Davíð í klæði sín og reif þau sundur. Svo gjörðu og allir menn, þeir er með honum voru.
12 Og þeir syrgðu og grétu og föstuðu til kvelds sakir Sáls og Jónatans sonar hans og sakir lýðs Drottins og húss Ísraels, af því að þeir voru fallnir fyrir sverði.
13 Þá sagði Davíð við manninn, sem flutti honum tíðindin: "Hvaðan ert þú?" Hann svaraði: "Ég er sonur hjábýlings nokkurs, sem er Amalekíti."
14 Þá sagði Davíð við hann: "Hvernig dirfðist þú að hefja hönd til þess að drepa Drottins smurða?"
15 Og Davíð kallaði á einn af sveinunum og mælti: "Kom þú hingað og drep hann." Og hann hjó hann banahögg.
16 En Davíð mælti til hans: "Blóð þitt komi yfir höfuð þér! því að þú hefir sjálfur kveðið upp dóm yfir þér, er þú sagðir: ,Ég hefi deytt Drottins smurða.'"
17 Davíð orti þetta sorgarkvæði eftir þá Sál og Jónatan son hans,
18 og hann bauð að kenna Júda sonum Kvæðið um bogann. Sjá, það er ritað í Bók hinna réttlátu:
19 Prýðin þín, Ísrael, liggur vegin á fjöllum þínum. En að hetjurnar skuli vera fallnar!
20 Segið ekki frá því í Gat, kunngjörið það eigi á Askalon-strætum, svo að dætur Filista fagni eigi og dætur óumskorinna hlakki eigi.
21 Þér Gilbóafjöll, eigi drjúpi dögg né regn á yður, þér svikalönd, því að þar var snarað burt skildi kappanna, skildi Sáls, sem eigi verður framar olíu smurður.
22 Frá blóði hinna vegnu, frá feiti kappanna hörfaði bogi Jónatans ekki aftur, og eigi hvarf sverð Sáls heim við svo búið.
23 Sál og Jónatan, ástúðugir og ljúfir í lífinu, skildu eigi heldur í dauðanum. Þeir voru örnum léttfærari, ljónum sterkari.
24 Ísraels dætur, grátið Sál! Hann skrýddi yður skarlati yndislega, hann festi gullskart á klæðnað yðar.
25 En að hetjurnar skyldu falla í bardaganum og Jónatan liggja veginn á hæðum þínum!
26 Sárt trega ég þig, bróðir minn Jónatan, mjög varstu mér hugljúfur! Ást þín var mér undursamlegri en ástir kvenna.
27 En að hetjurnar skuli vera fallnar og hervopnin glötuð!
Kafla 2

1 Eftir þetta spurði Davíð Drottin á þessa leið: "Á ég að fara til einhverrar af borgunum í Júda?" Drottinn svaraði honum: "Já." Þá sagði Davíð: "Hvert á ég að fara?" Hann svaraði: "Til Hebron."
2 Þá fór Davíð þangað, og með honum báðar konur hans, þær Akínóam frá Jesreel og Abígail, er átt hafði Nabal í Karmel.
3 Davíð lét og mennina, sem hjá honum voru, fara, hvern með sína fjölskyldu, og þeir settust að í borgunum kringum Hebron.
4 Þá komu Júdamenn til Hebron og smurðu Davíð til konungs yfir Júda hús. Nú var Davíð sagt svo frá: "Íbúarnir í Jabes Gíleað hafa jarðað Sál."
5 Þá gjörði Davíð menn á fund íbúanna í Jabes í Gíleað og lét segja við þá: "Verið blessaðir af Drottni fyrir það, að þér hafið sýnt þetta kærleiksverk á herra yðar Sál, að jarða hann.
6 Drottinn sýni yður nú kærleika og trúfesti. En ég vil og yður góðu launa, sakir þess að þér gjörðuð þetta.
7 Og verið nú hughraustir og látið á sjá, að þér séuð vaskir menn. Því að Sál, herra yðar, er dauður, enda hefir Júda hús smurt mig til konungs yfir sig."
8 Abner Nersson, hershöfðingi Sáls, tók Ísbóset, son Sáls, og fór með hann yfir til Mahanaím
9 og gjörði hann að konungi yfir Gíleað, Asserítum, Jesreel, Efraím, Benjamín og yfir öllum Ísrael.
10 Ísbóset, sonur Sáls, var fertugur, þá er hann varð konungur yfir Ísrael, og hann ríkti í tvö ár. Júda hús eitt fylgdi Davíð.
11 Og tíminn, sem Davíð var konungur í Hebron, yfir Júda húsi, var sjö ár og sex mánuðir.
12 Abner Nersson fór með þjóna Ísbósets, sonar Sáls, frá Mahanaím til Gíbeon.
13 Jóab Serújuson fór og með þjóna Davíðs frá Hebron, og varð fundur þeirra við Gíbeontjörn, og settust þeir sínum megin hvorir við tjörnina.
14 Þá sagði Abner við Jóab: "Standi upp sveinar hvorra tveggja og leiki nokkuð til skemmtunar oss." Jóab kvað að svo skyldi vera.
15 Þá stóðu þeir upp og gengu fram eftir tölu: tólf fyrir Benjamíns ættkvísl, fyrir Ísbóset, son Sáls, og tólf af þjónum Davíðs.
16 Þeir þrifu hver í annars koll og lögðu sverði hver í annars síðu, svo að þeir féllu hver með öðrum. Var sá staður kallaður Branda-akur, og er hann hjá Gíbeon.
17 Tókst þá mjög hörð orusta á þeim degi, og fór Abner og Ísraelsmenn halloka fyrir mönnum Davíðs.
18 Þar voru þrír synir Serúju, þeir Jóab, Abísaí og Asahel, en Asahel var frár á fæti sem skógargeitin í haganum.
19 Og Asahel rann eftir Abner og veik hvorki til hægri né vinstri, heldur elti hann einan.
20 Þá sneri Abner sér við og mælti: "Ert það þú, Asahel?" Hann kvað svo vera.
21 Þá sagði Abner við hann: "Vík þú annaðhvort til hægri eða vinstri, og ráðst þú á einhvern af sveinunum og tak hertygi hans." En Asahel vildi ekki láta af að elta hann.
22 Þá mælti Abner aftur við Asahel: "Lát af að elta mig! Hví skyldi ég leggja þig að velli? Hvernig gæti ég þá litið upp á Jóab bróður þinn?"
23 En hann vildi ekki af láta. Þá lagði Abner spjótinu aftur fyrir sig í kvið honum, svo að út gekk um bakið, og féll hann dauður niður þar sem hann stóð. En allir þeir, er komu þangað sem Asahel hafði fallið niður dauður, námu staðar.
24 Jóab og Abísaí eltu Abner, og er sól gekk undir, voru þeir komnir til Gíbeat Amma, sem liggur fyrir austan Gía, á leiðinni til Gíbeonóbyggða.
25 Þá söfnuðust Benjamínítar saman til liðs við Abner og urðu einn flokkur, og námu þeir staðar efst uppi á hæð einni.
26 Þá kallaði Abner til Jóabs og mælti: "Á þá sverðið sífellt að eyða? Veistu eigi, að beisk munu verða endalokin? Hversu lengi ætlar þú að draga að segja liðinu að láta af að elta bræður sína?"
27 Jóab svaraði: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir, hefðir þú ekki talað, þá hefði liðið ekki látið af að elta bræður sína fyrr en á morgun."
28 Síðan þeytti Jóab lúðurinn, og nam þá allt liðið staðar og lét af að elta Ísrael og hætti að berjast.
29 En Abner og menn hans fóru yfir Jórdandalinn alla þá nótt, fóru því næst yfir Jórdan og gengu öll þrengslin og komust til Mahanaím.
30 Er Jóab hafði látið af að elta Abner, þá safnaði hann saman öllu liðinu, og vantaði þá aðeins nítján manns af mönnum Davíðs og Asahel,
31 en menn Davíðs höfðu lagt að velli þrjú hundruð og sextíu manns af Benjamínítum, af mönnum Abners.
32 En Asahel tóku þeir og jörðuðu hann hjá föður hans í Betlehem. Því næst hélt Jóab og menn hans áfram ferðinni alla nóttina og komu til Hebron í dögun.
Kafla 3

1 Þegar ófriðurinn milli Sáls húss og Davíðs húss tók að gjörast langvinnur, þá efldist Davíðs hús meir og meir, en Sáls húsi hnignaði meir og meir.
2 Davíð fæddust synir í Hebron: Frumgetinn sonur hans var Amnon, með Akínóam frá Jesreel.
3 Annar sonur hans var Kíleab, með Abígail, er átt hafði Nabal í Karmel, hinn þriðji Absalon, sonur Maöku, dóttur Talmaí, konungs í Gesúr,
4 hinn fjórði Adónía, sonur Haggítar, hinn fimmti Sefatja, sonur Abítalar,
5 og hinn sjötti Jitream, með Eglu, konu Davíðs. Þessir fæddust Davíð í Hebron.
6 Meðan ófriðurinn stóð milli Sáls húss og Davíðs húss, var Abner öflugur fylgismaður Sáls húss.
7 Sál hafði átt hjákonu, er Rispa hét og var Ajasdóttir. Og Ísbóset, sonur Sáls, sagði við Abner: "Hví hefir þú gengið í eina sæng með hjákonu föður míns?"
8 Abner reiddist mjög orðum Ísbósets og mælti: "Er ég sá hundshaus, að ég haldi með Júda? Enn í dag auðsýni ég elsku húsi Sáls, föður þíns, vandamönnum hans og vinum, og ég hefi ekki framselt þig í hendur Davíðs, og þó ásakar þú mig í dag um konumál.
9 Guð gjöri mér það, er hann vill, nú og síðar: Eins og Drottinn hefir svarið Davíð, svo skal ég við hann gjöra:
10 flytja konungdóminn frá húsi Sáls og reisa hásæti Davíðs yfir Ísrael og Júda, frá Dan til Beerseba."
11 Hinn gat ekki svarað Abner einu orði af hræðslu við hann.
12 Þá gjörði Abner sendimenn á fund Davíðs í Hebron með þessa orðsending: "Hvers er landið?" Og: "Gjör þú sáttmála við mig, þá mun ég veita þér fulltingi til að snúa öllum Ísrael til fylgis við þig."
13 Davíð svaraði: "Gott og vel, ég vil gjöra sáttmála við þig. En eins krefst ég af þér: Þú skalt ekki líta ásjónu mína fyrr en þú færir mér Míkal, dóttur Sáls, þá er þú kemur til þess að líta ásjónu mína."
14 Og Davíð gjörði sendimenn á fund Ísbósets, sonar Sáls, með þá orðsending: "Fá mér konu mína Míkal, er ég festi mér fyrir hundrað filistayfirhúðir."
15 Þá sendi Ísbóset og lét taka hana frá manni hennar, Paltíel Laíssyni.
16 Og maður hennar fylgdi henni með miklum gráti til Bahúrím. Þá sagði Abner við hann: "Farðu nú heim aftur!" Fór hann þá aftur heim.
17 Abner hafði átt tal við öldunga Ísraels og sagt: "Þér hafið þegar fyrir löngu æskt þess, að Davíð yrði konungur yðar.
18 Látið nú af því verða, því að Drottinn hefir sagt við Davíð: ,Fyrir hönd Davíðs, þjóns míns, mun ég frelsa lýð minn Ísrael af hendi Filista og af hendi allra óvina þeirra.'"
19 Abner kom og að máli við Benjamíníta. Því næst hélt Abner á fund Davíðs í Hebron til þess að segja honum frá, hversu Ísrael og allt Benjamíns hús vildi allt vera láta.
20 En er Abner kom til Davíðs í Hebron og með honum tveir tigir manna, þá gjörði Davíð Abner veislu og mönnunum, sem með honum voru.
21 Þá sagði Abner við Davíð: "Ég vil taka mig til og fara og safna öllum Ísrael utan um herra minn, konunginn, til þess að þeir gjöri sáttmála við þig, og þú verðir konungur yfir öllum þeim, sem þín sála girnist." Síðan lét Davíð Abner burt fara í friði.
22 Rétt í þessu komu menn Davíðs og Jóab heim úr ránsferð, og fluttu þeir með sér mikið herfang. En Abner var þá ekki hjá Davíð í Hebron, því að hann hafði látið hann í burt fara í friði.
23 Þegar Jóab nú kom og allur herinn, sem með honum var, færðu menn Jóab þessi tíðindi: "Abner Nersson kom hingað á konungs fund, og hann lét hann fara aftur burt í friði."
24 Þá gekk Jóab fyrir konung og mælti: "Hvað hefir þú gjört? Abner hefir komið hingað til þín! Hví lést þú hann frjálsan í brott fara?
25 Veistu ekki, að Abner Nersson hefir komið til þess að fleka þig og til þess að verða vísari um hátterni þitt og fá vitneskju um allt, sem þú hefir fyrir stafni?"
26 Og er Jóab var genginn út frá Davíð, þá sendi hann menn eftir Abner, og þeir komu með hann aftur frá Sírabrunni. Davíð vissi ekki af þessu.
27 En er Abner var aftur kominn til Hebron, veik Jóab honum á eintal afsíðis í borgarhliðinu og lagði hann þar í kviðinn, svo að hann beið bana af - til hefnda fyrir víg Asahels bróður síns.
28 En er Davíð síðar frétti það, sagði hann: "Saklaus er ég og mitt ríki fyrir Drottni að eilífu af blóði Abners Nerssonar!
29 Komi það yfir höfuð Jóabs og yfir alla ætt hans! Aldrei verði í ætt Jóabs þeirra vant, er rennsli hafa og líkþráir eru, sem ganga við hækju, falla fyrir sverði eða vantar brauð!"
30 En Jóab og Abísaí bróðir hans myrtu Abner, af því að hann hafði drepið Asahel bróður þeirra hjá Gíbeon í bardaga.
31 Og Davíð sagði við Jóab og allt fólkið, sem hjá honum var: "Rífið klæði yðar og gyrðist hærusekk og gangið kveinandi fyrir Abner!" En Davíð konungur gekk á eftir líkbörunum.
32 Og þeir jörðuðu Abner í Hebron, og hóf þá konungur grát við gröf Abners, og allur lýðurinn grét líka.
33 Og konungur orti þessi sorgarljóð eftir Abner: Varð þá Abner að deyja dauða guðleysingjans?
34 Hendur þínar voru ekki bundnar, og fætur þínir voru ekki fjötraðir. Þú ert fallinn, eins og menn falla fyrir níðingum. Þá grét allur lýðurinn enn meira yfir honum.
35 Allur lýðurinn kom og vildi fá Davíð til að neyta matar meðan enn var dagur, en Davíð sór og mælti: "Guð láti mig gjalda þess nú og síðar, ef ég smakka brauð eða nokkuð annað fyrir sólarlag."
36 Allur lýðurinn tók eftir því og líkaði þeim það vel. Reyndar líkaði öllum lýðnum vel allt það, sem konungurinn gjörði.
37 Og allt fólkið og allur Ísrael sannfærðist um það á þeim degi, að konungur væri ekki valdur að vígi Abners Nerssonar.
38 Konungur mælti og við menn sína: "Vitið þér ekki, að höfðingi og mikill maður er í dag fallinn í Ísrael?
39 En ég má mín enn lítils, þótt ég sé smurður til konungs, og þessir menn, Serújusynir, eru mér yfirsterkari. Drottinn gjaldi þeim, sem níðingsverkið hefir unnið, svo sem hann á skilið fyrir níðingsverk sitt!"
Kafla 4

1 Er Ísbóset sonur Sáls frétti, að Abner væri dauður í Hebron, féllust honum hendur, og allur Ísrael varð óttasleginn.
2 Ísbóset sonur Sáls hafði tvo menn hjá sér, foringja fyrir ránsflokkum. Hét annar þeirra Baana, en hinn Rekab. Þeir voru synir Rimmóns frá Beerót, af kynþætti Benjamíns, því að Beerót telst með Benjamín.
3 En Beerótbúar voru flúnir til Gittaím, og hafa þeir verið þar sem hjábýlingar fram á þennan dag.
4 Jónatan, sonur Sáls, átti son lama á báðum fótum. Hann var fimm vetra gamall, þegar fregnin kom um Sál og Jónatan frá Jesreel. Þá tók fóstra hans hann og flýði, en í ofboðinu, er hún flýði, féll hann og varð lami. Hann hét Mefíbóset.
5 Synir Rimmóns frá Beerót, þeir Rekab og Baana, lögðu af stað og komu, þá er heitast var dags, í hús Ísbósets. Hafði hann þá lagt sig um miðdegið.
6 En stúlkan, sem dyranna gætti, hafði verið að hreinsa hveiti, og hafði hana syfjað og var hún sofandi. Þeir Rekab og Baana bróðir hans læddust því inn.
7 Og er þeir komu inn í húsið, þá lá Ísbóset í hvílu sinni í svefnhúsi sínu. En þeir báru vopn á hann og unnu á honum og hjuggu af honum höfuðið. Því næst tóku þeir höfuð hans og héldu áfram alla nóttina veginn yfir Jórdandalinn.
8 Og þeir færðu Davíð í Hebron höfuðið af Ísbóset og mæltu við konunginn: "Hér er höfuð Ísbósets, sonar Sáls, óvinar þíns, sem sat um líf þitt. Drottinn hefir nú látið herra mínum, konunginum, verða hefndar auðið á Sál og niðjum hans."
9 Davíð svaraði Rekab og Baana bróður hans, þeim sonum Rimmóns frá Beerót, og mælti til þeirra: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er frelsað hefir líf mitt úr öllum nauðum:
10 Þann mann, sem færði mér tíðindin: ,Sjá, Sál er dauður!' og hugðist færa mér gleðitíðindi, hann lét ég handtaka og drepa í Siklag og galt honum þann veg sögulaunin.
11 Og þegar illir menn nú hafa myrt saklausan mann í hvílu sinni í hans eigin húsi, skyldi ég þá ekki miklu fremur krefjast blóðs hans af ykkar hendi og afmá ykkur af jörðinni?"
12 Síðan bauð Davíð sveinum sínum að drepa þá. Þeir gjörðu svo og hjuggu af þeim hendur og fætur og hengdu þá upp hjá tjörninni í Hebron. En höfuð Ísbósets tóku þeir og jörðuðu það í gröf Abners í Hebron.
Kafla 5

1 Allar ættkvíslir Ísraels komu til Davíðs í Hebron og sögðu: "Sjá, vér erum hold þitt og bein!
2 Þegar um langa hríð, á meðan Sál var konungur yfir oss, hefir þú verið fyrir Ísrael, bæði þegar hann lagði af stað í stríð og þegar hann kom heim. Auk þess hefir Drottinn við þig sagt: ,Þú skalt vera hirðir þjóðar minnar Ísraels, og þú skalt vera höfðingi yfir Ísrael!'"
3 Allir öldungar Ísraels komu til konungsins í Hebron, og Davíð konungur gjörði við þá sáttmála í Hebron, frammi fyrir augliti Drottins, og þeir smurðu Davíð til konungs yfir Ísrael.
4 Þrjátíu ára gamall var Davíð, þá er hann varð konungur, og fjörutíu ár ríkti hann.
5 Í Hebron ríkti hann sjö ár og sex mánuði yfir Júda, og í Jerúsalem ríkti hann þrjátíu og þrjú ár yfir öllum Ísrael og Júda.
6 Konungur og menn hans fóru til Jerúsalem í móti Jebúsítum, sem bjuggu í því héraði. Jebúsítar sögðu við Davíð: "Þú munt eigi komast hér inn, heldur munu blindir menn og haltir reka þig burt." Með því áttu þeir við: "Davíð mun ekki komast hér inn."
7 En Davíð tók vígið Síon, það er Davíðsborg.
8 Davíð sagði á þeim degi: "Hver sem vill vinna sigur á Jebúsítum, skal fara um göngin til þess að komast að ,þeim höltu og blindu', sem Davíð hatar í sálu sinni." Þaðan er komið máltækið: "Blindir og haltir komast ekki inn í musterið."
9 Því næst settist Davíð að í víginu, og nefndi hann það Davíðsborg. Hann reisti og víggirðingar umhverfis, frá Milló og þaðan inn á við.
10 Og Davíð efldist meir og meir, og Drottinn, Guð allsherjar, var með honum.
11 Híram, konungur í Týrus, gjörði menn á fund Davíðs og sendi honum sedrustré, trésmiði og steinhöggvara, og reistu þeir höll handa Davíð.
12 Og Davíð kannaðist við, að Drottinn hefði staðfest konungdóm hans yfir Ísrael og eflt konungsríki hans fyrir sakir þjóðar sinnar Ísraels.
13 Davíð tók sér enn hjákonur og konur í Jerúsalem, eftir að hann var farinn burt frá Hebron, og Davíð fæddust enn synir og dætur.
14 Þetta eru nöfn þeirra sona, sem honum fæddust í Jerúsalem: Sammúa, Sóbab, Natan, Salómon,
15 Jíbhar, Elísúa, Nefeg, Jafía,
16 Elísama, Eljada og Elífelet.
17 Þegar Filistar heyrðu að Davíð væri smurður til konungs yfir Ísrael, lögðu þeir af stað að leita Davíðs. Og er Davíð frétti það, fór hann ofan í fjallvígið.
18 Og Filistar komu og dreifðu sér um Refaímdal.
19 Þá gekk Davíð til frétta við Drottin og sagði: "Á ég að fara móti Filistum? Munt þú gefa þá í hendur mér?" Drottinn svaraði Davíð: "Far þú, því að ég mun vissulega gefa Filista í hendur þér."
20 Þá fór Davíð til Baal Perasím. Og Davíð vann þar sigur á þeim og sagði: "Drottinn hefir skolað burt óvinum mínum fyrir mér, eins og þegar vatn ryður sér rás." Fyrir því var sá staður nefndur Baal Perasím.
21 En þeir létu þar eftir skurðgoð sín, og Davíð og menn hans tóku þau.
22 Filistar komu aftur og dreifðu sér um Refaímdal.
23 Þá gekk Davíð til frétta við Drottin, og hann svaraði: "Far þú eigi í móti þeim. Far þú í bug og kom að baki þeim og ráð á þá fram undan bakatrjánum.
24 Og þegar þú heyrir þyt af ferð í krónum bakatrjánna, þá skalt þú hraða þér, því að þá fer Drottinn fyrir þér til þess að ljósta her Filista."
25 Og Davíð gjörði eins og Drottinn bauð honum og vann sigur á Filistum frá Geba alla leið til Geser.
Kafla 6

1 Davíð safnaði enn saman öllu einvalaliði í Ísrael, þrjátíu þúsund manns.
2 Síðan tók Davíð sig upp og lagði af stað með allt það lið, sem hjá honum var, til Baala í Júda til þess að flytja þaðan örk Guðs, sem kennd er við nafn Drottins allsherjar, hans sem situr uppi yfir kerúbunum.
3 Og þeir óku örk Guðs á nýjum vagni og tóku hana úr húsi Abínadabs, því er stóð á hæðinni, og stýrðu þeir Ússa og Ahjó, synir Abínadabs, vagninum.
4 Ússa gekk með örk Guðs, en Ahjó gekk fyrir örkinni.
5 Og Davíð og allt Ísraels hús dansaði fyrir Drottni af öllum mætti, með söng, gígjum, hörpum, bumbum, bjöllum og skálabumbum.
6 En er þeir komu að þreskivelli Nakóns, greip Ússa hendinni í örk Guðs og hélt fast í hana, því að slakað hafði verið á taumhaldinu við akneytin.
7 Þá upptendraðist reiði Drottins gegn Ússa, og Guð laust hann þar, af því að hann hafði gripið hendi sinni í örkina, og dó hann þar hjá örk Guðs.
8 En Davíð féll það þungt, að Drottinn hafði lostið Ússa svo hart, og hefir þessi staður verið nefndur Peres Ússa allt fram á þennan dag.
9 Davíð varð hræddur við Drottin á þeim degi og sagði: "Hvernig má þá örk Drottins komast til mín?"
10 Og Davíð vildi ekki flytja örk Drottins til sín í Davíðsborg, heldur sneri hann með hana til húss Óbeð Edóms í Gat.
11 Og örk Drottins var síðan í húsi Óbeð Edóms í Gat þrjá mánuði, og Drottinn blessaði Óbeð Edóm og allt hans hús.
12 En er Davíð konungi komu þau tíðindi: "Drottinn hefir blessað hús Óbeð Edóms og allt, sem hann á, sakir Guðs arkar," þá lagði Davíð af stað og sótti örk Guðs í hús Óbeð Edóms og flutti hana til Davíðsborgar með fögnuði.
13 Og er þeir, sem báru örk Drottins, höfðu gengið sex skref, fórnaði hann nauti og alikálfi.
14 Og Davíð dansaði af öllum mætti fyrir Drottni, og var Davíð þá gyrtur línhökli.
15 Og Davíð og allt Ísraels hús flutti örk Drottins upp með fagnaðarópi og lúðurhljómi.
16 En er örk Drottins kom í Davíðsborg, leit Míkal, dóttir Sáls, út um gluggann, og er hún sá Davíð konung vera að hoppa og dansa fyrir Drottni, fyrirleit hún hann í hjarta sínu.
17 Þeir fluttu örk Drottins inn og settu hana á sinn stað í tjaldi því, sem Davíð hafði reisa látið yfir hana, og Davíð færði brennifórnir frammi fyrir Drottni og heillafórnir.
18 Og er Davíð hafði fært brennifórnina og heillafórnirnar, blessaði hann lýðinn í nafni Drottins allsherjar.
19 Hann úthlutaði og öllu fólkinu, öllum múg Ísraels, bæði körlum og konum, hverjum fyrir sig einni brauðköku, einu kjötstykki og einni rúsínuköku. Síðan fór allur lýðurinn burt, hver heim til sín.
20 En er Davíð kom heim til þess að heilsa fólki sínu, gekk Míkal, dóttir Sáls, á móti honum og mælti: "Tígulegur var Ísraelskonungurinn í dag, þar sem hann beraði sig í dag í augsýn ambátta þjóna sinna, eins og þegar einhver af argasta skrílnum berar sig!"
21 Þá sagði Davíð við Míkal: "Fyrir Drottni vil ég dansa. Hann hefir tekið mig fram yfir föður þinn og fram yfir allt hans hús og skipað mig höfðingja yfir lýð Drottins, yfir Ísrael, og fyrir Drottni vil ég leika
22 og lítillækka mig enn meir en þetta og líta smáum augum á sjálfan mig. En með ambáttunum, sem þú talaðir um, hjá þeim mun ég verða vegsamlegur."
23 Míkal, dóttir Sáls, var barnlaus til dauðadags.
Kafla 7

1 Svo bar til, þá er konungur sat í höll sinni - en Drottinn hafði þá veitt honum frið fyrir öllum óvinum hans allt í kring -,
2 að konungur sagði við Natan spámann: "Sjá, ég bý í höll af sedrusviði, en örk Guðs býr undir tjalddúk."
3 Natan svaraði konungi: "Far þú og gjör allt, sem þér er í hug, því að Drottinn er með þér."
4 En hina sömu nótt kom orð Drottins til Natans, svohljóðandi:
5 "Far og seg þjóni mínum Davíð: Svo segir Drottinn: Ætlar þú að reisa mér hús til að búa í?
6 Ég hefi ekki búið í húsi, síðan ég leiddi Ísraelsmenn út af Egyptalandi, allt fram á þennan dag, heldur ferðaðist ég í tjaldi og búð.
7 Alla þá stund, er ég hefi um farið meðal Ísraelsmanna, hefi ég þá sagt nokkurt orð í þá átt við nokkurn af dómurum Ísraels, er ég setti til að vera hirða lýðs míns, Ísraels: ,Hví reisið þér mér ekki hús af sedrusviði?'
8 Nú skalt þú svo segja þjóni mínum Davíð: Svo segir Drottinn allsherjar: Ég tók þig úr haglendinu, frá hjarðmennskunni, og setti þig höfðingja yfir lýð minn, Ísrael.
9 Ég hefi verið með þér í öllu, sem þú hefir tekið þér fyrir hendur, og upprætt alla óvini þína fyrir þér. Ég mun gjöra nafn þitt sem nafn hinna mestu manna, sem á jörðinni eru,
10 og fá lýð mínum Ísrael stað og gróðursetja hann þar, svo að hann geti búið á sínum stað og geti verið öruggur framvegis. Níðingar skulu ekki þjá hann framar eins og áður,
11 frá því er ég setti dómara yfir lýð minn Ísrael, og ég vil veita þér frið fyrir öllum óvinum þínum. Og Drottinn boðar þér, að hann muni reisa þér hús.
12 Þegar ævi þín er öll og þú leggst hjá feðrum þínum, mun ég hefja son þinn eftir þig, þann er frá þér kemur, og staðfesta konungdóm hans.
13 Hann skal reisa hús mínu nafni, og ég mun staðfesta konungsstól hans að eilífu.
14 Ég vil vera honum faðir, og hann skal vera mér sonur, svo að þótt honum yfirsjáist, þá mun ég hirta hann með manna vendi og manns barna höggum,
15 en miskunn mína mun ég ekki frá honum taka, eins og ég tók hana frá fyrirrennara þínum.
16 Hús þitt og ríki skal stöðugt standa fyrir mér að eilífu. Hásæti þitt skal vera óbifanlegt að eilífu."
17 Natan flutti Davíð öll þessi orð og sagði honum sýn þessa alla.
18 Þá gekk Davíð konungur inn og settist niður frammi fyrir Drottni og mælti: "Hver er ég, Drottinn Guð, og hvað er hús mitt, að þú skulir hafa leitt mig til þessa?
19 Og þér nægði það eigi, Drottinn Guð, heldur hefir þú og fyrirheit gefið um hús þjóns þíns langt fram í aldir, og það meira að segja á mannlegan hátt, Drottinn Guð.
20 En hvað má Davíð enn við þig mæla? Þú þekkir sjálfur þjón þinn, Drottinn Guð!
21 Sakir þjóns þíns og að þínum vilja hefir þú gjört þetta, að boða þjóni þínum alla þessa miklu hluti.
22 Fyrir því ert þú mikill, Drottinn Guð, því að enginn er sem þú, og enginn er Guð nema þú samkvæmt öllu því, er vér höfum heyrt með eyrum vorum.
23 Og hvaða þjóð önnur á jörðinni jafnast við þína þjóð, Ísrael, að Guð hafi framgengið og endurleyst hana sér að eignarlýð og aflað sér frægðar? Þú gjörðir fyrir þá þessa miklu hluti og hræðilegu, að stökkva burt þjóðum og guðum þeirra undan þínu fólki, sem þú hafðir endurleyst af Egyptalandi.
24 Þú hefir gjört lýð þinn Ísrael að þínum lýð um aldur og ævi, og þú, Drottinn, gjörðist Guð þeirra.
25 Og lát þú, Drottinn Guð, fyrirheit það, er þú hefir gefið um þjón þinn og um hús hans, stöðugt standa um aldur og ævi, og gjör þú svo sem þú hefir heitið.
26 Þá mun nafn þitt mikið verða að eilífu og hljóða svo: Drottinn allsherjar, Guð yfir Ísrael - og hús þjóns þíns Davíðs mun stöðugt standa fyrir þér.
27 Því að þú, Drottinn allsherjar, Guð Ísraels, hefir birt þjóni þínum þetta: ,Ég mun reisa þér hús.' Fyrir því hafði þjónn þinn djörfung til að bera þessa bæn fram fyrir þig.
28 Og nú, Drottinn Guð, þú ert Guð og þín orð eru sannleikur, og þú hefir gefið þjóni þínum þetta dýrlega fyrirheit.
29 Virst þú nú að blessa hús þjóns þíns, svo að það sé til að eilífu fyrir þínu augliti. Því að þú, Drottinn Guð, hefir fyrirheit gefið, og fyrir blessun þína mun hús þjóns þíns blessað verða að eilífu."
Kafla 8

1 Eftir þetta vann Davíð sigur á Filistum og braut þá undir sig og tók tauma höfuðstaðarins úr höndum Filista.
2 Hann vann og sigur á Móabítum og mældi þá með vað, það er að segja, hann lét þá leggjast niður á jörðina og mældi tvo vaði til lífláts og eina vaðlengd til að halda lífi. Þannig urðu Móabítar skattskyldir þegnar Davíðs.
3 Davíð vann og sigur á Hadadeser Rehóbssyni, konungi í Sóba, þá er hann fór leiðangur til að ná aftur ríki við Efrat.
4 Vann Davíð af honum eitt þúsund og sjö hundruð riddara og tuttugu þúsundir fótgönguliðs. Lét Davíð skera sundur hásinarnar á öllum stríðshestunum og hélt aðeins hestum fyrir hundrað stríðsvagna eftir.
5 Og er Sýrlendingar frá Damaskus komu til liðs við Hadadeser, konung í Sóba, þá felldi Davíð tuttugu og tvö þúsund manns af Sýrlendingum.
6 Og Davíð setti landstjóra á Sýrlandi, því er kennt er við Damaskus, og urðu Sýrlendingar skattskyldir þegnar Davíðs. Þannig veitti Drottinn Davíð sigur, hvert sem hann fór.
7 Davíð tók og hina gullnu skjöldu, er þjónar Hadadesers höfðu borið, og flutti þá til Jerúsalem.
8 Auk þess tók Davíð konungur afar mikið af eir í Beta og Berótaj, borgum Hadadesers.
9 Þegar Tóú, konungur í Hamat, frétti að Davíð hefði lagt að velli allan her Hadadesers,
10 þá sendi Tóú Hadóram son sinn á fund Davíðs konungs til þess að heilsa á hann og árna honum heilla, er hann hafði barist við Hadadeser og unnið sigur á honum - því að Tóú átti í ófriði við Hadadeser -, og hafði hann með sér gripi af silfri, gulli og eiri.
11 Gripina helgaði Davíð konungur einnig Drottni, ásamt silfri því og gulli, er hann hafði helgað frá öllum þeim þjóðum, er hann hafði undirokað:
12 frá Edóm, Móab, Ammónítum, Filistum, Amalek og af herfangi Hadadesers Rehóbssonar, konungs í Sóba.
13 Davíð jók orðstír sinn, þá er hann sneri aftur og hafði unnið sigur á Sýrlendingum, með því að vinna sigur á Edómítum í Saltdalnum, átján þúsund manns.
14 Og hann setti landstjóra í Edóm. Um allt Edóm setti hann landstjóra, og þannig urðu allir Edómítar þegnar Davíðs. En Drottinn veitti Davíð sigur, hvert sem hann fór.
15 Davíð ríkti yfir öllum Ísrael og lét alla þjóð sína njóta laga og réttar.
16 Jóab Serújuson var fyrir hernum, og Jósafat Ahílúðsson var ríkisritari.
17 Sadók Ahítúbsson og Ahímelek Abjatarsson voru prestar og Seraja kanslari.
18 Benaja Jójadason var fyrir Kretum og Pletum, og synir Davíðs voru prestar.
Kafla 9

1 Davíð sagði: "Er nú nokkur maður eftir orðinn af húsi Sáls? Honum vil ég miskunn auðsýna fyrir sakir Jónatans."
2 Af húsi Sáls var til maður, er Síba hét. Hann var kallaður á fund Davíðs. Og konungur sagði við hann: "Ert þú Síba?" Hann svaraði: "Þinn þjónn!"
3 Þá mælti konungur: "Er nokkur eftir af húsi Sáls, að ég megi auðsýna honum miskunn Guðs?" Síba sagði við konung: "Enn er á lífi sonur Jónatans og er lami á báðum fótum."
4 Þá sagði konungur við hann: "Hvar er hann?" Síba sagði við konung: "Hann er í húsi Makírs Ammíelssonar í Lódebar."
5 Þá sendi Davíð konungur og lét sækja hann í hús Makírs Ammíelssonar í Lódebar.
6 Og Mefíbóset Jónatansson, Sálssonar, gekk fyrir Davíð, féll fram á ásjónu sína og laut honum. Og Davíð sagði: "Mefíbóset!" Hann svaraði: "Hér er þjónn þinn."
7 Þá mælti Davíð til hans: "Ver þú óhræddur, því að ég vil auðsýna þér miskunn fyrir sakir Jónatans, föður þíns, og fá þér aftur allar jarðeignir Sáls forföður þíns, og þú skalt jafnan eta við mitt borð."
8 Þá laut hann og mælti: "Hvað er þjónn þinn þess, að þú skiptir þér af dauðum hundi, eins og mér?"
9 Síðan kallaði konungur á Síba, þjón Sáls, og mælti til hans: "Allt sem Sál átti, og allt sem hús hans átti gef ég syni herra þíns.
10 Skalt þú nú yrkja landið fyrir hann ásamt sonum þínum og þrælum og hirða af því, svo að sonur herra þíns hafi fæðu og megi eta. En Mefíbóset, sonur herra þíns, skal jafnan eta við mitt borð." Og Síba átti fimmtán sonu og tuttugu þræla.
11 Síba sagði við konung: "Þjónn þinn mun gjöra að öllu svo sem minn herra konungurinn hefir boðið þjóni sínum." Og Mefíbóset át við borð Davíðs, svo sem væri hann einn konungssona.
12 Mefíbóset átti ungan son, sem Míka hét. Allir sem bjuggu í húsi Síba, voru þjónar Mefíbósets.
13 En Mefíbóset bjó í Jerúsalem, því að hann át jafnan við borð konungs. Hann var haltur á báðum fótum.
Kafla 10

1 Eftir þetta bar svo til, að konungur Ammóníta dó, og tók Hanún sonur hans ríki eftir hann.
2 Þá sagði Davíð: "Ég vil sýna Hanún Nahassyni vináttu, eins og faðir hans sýndi mér vináttu." Síðan sendi Davíð þjóna sína til að hugga hann eftir föðurmissinn. En er þjónar Davíðs komu í land Ammóníta,
3 þá sögðu höfðingjar Ammóníta við Hanún, herra sinn: "Hyggur þú, að Davíð vilji heiðra föður þinn, er hann gjörir menn á þinn fund til að hugga þig? Mun Davíð ekki hafa sent þjóna sína á þinn fund til þess að njósna í borginni og kanna hana og kollvarpa henni síðan?"
4 Þá lét Hanún taka þjóna Davíðs og raka af þeim hálft skeggið og skera af þeim klæðin til hálfs, upp á þjóhnappa, og lét þá síðan fara.
5 Davíð voru sögð þessi tíðindi, og sendi hann þá menn á móti þeim, - því að mennirnir voru mjög svívirtir -, og konungur lét segja þeim: "Verið í Jeríkó, uns skegg yðar er vaxið, og komið síðan heim aftur."
6 En er Ammónítar sáu, að þeir höfðu gjört sig illa þokkaða hjá Davíð, sendu þeir menn og tóku á mála Sýrlendinga frá Bet Rehób og Sýrlendinga frá Sóba, tuttugu þúsundir fótgönguliðs, svo og konunginn í Maaka með þúsund manns, og tólf þúsund manns frá Tób.
7 En er Davíð frétti það, sendi hann Jóab af stað með allan herinn, það er að segja kappana.
8 Ammónítar fóru og út og fylktu liði sínu fyrir utan borgarhliðið, en Sýrlendingarnir frá Sóba og Rehób, svo og mennirnir frá Tób og Maaka, stóðu úti á víðavangi einir sér.
9 En er Jóab sá, að honum var búinn bardagi bæði að baki og að framan, valdi hann úr öllu einvalaliði Ísraels og fylkti því á móti Sýrlendingum.
10 Hitt liðið fékk hann Abísaí bróður sínum, og fylkti hann því á móti Ammónítum.
11 Og Jóab mælti: "Ef Sýrlendingar bera mig ofurliði, þá verður þú að hjálpa mér, en ef Ammónítar bera þig ofurliði, þá mun ég koma þér til hjálpar.
12 Vertu hughraustur, og sýnum nú af oss karlmennsku fyrir þjóð vora og borgir Guðs vors, en Drottinn gjöri það, sem honum þóknast."
13 Síðan lagði Jóab og liðið, sem með honum var, til orustu við Sýrlendinga, og þeir flýðu fyrir honum.
14 En er Ammónítar sáu, að Sýrlendingar flýðu, lögðu þeir og á flótta fyrir Abísaí og leituðu inn í borgina. En Jóab sneri heim frá Ammónítum og fór til Jerúsalem.
15 Þegar Sýrlendingar sáu, að þeir höfðu beðið ósigur fyrir Ísrael, söfnuðust þeir saman.
16 Og Hadadeser sendi boð og bauð út Sýrlendingum, sem voru hinumegin við Efrat, og þeir komu til Helam, og Sóbak, hershöfðingi Hadadesers, var fyrir þeim.
17 Og er Davíð var sagt frá því, þá safnaði hann saman öllum Ísrael, fór yfir Jórdan og kom til Helam. Sýrlendingar fylktu liði sínu í móti Davíð og börðust við hann.
18 En Sýrlendingar flýðu fyrir Ísrael, og Davíð felldi sjö hundruð vagnkappa og fjörutíu þúsund manns af Sýrlendingum. Hann særði og hershöfðingja þeirra, Sóbak, svo að hann dó þar.
19 En er konungarnir, sem voru lýðskyldir Hadadeser, sáu, að þeir höfðu beðið ósigur fyrir Ísrael, sömdu þeir allir frið við Ísrael og gjörðust lýðskyldir honum. Upp frá því þorðu Sýrlendingar ekki að veita Ammónítum lið.
Kafla 11

1 Svo bar til árið eftir, um það leyti sem konungar eru vanir að fara í hernað, að Davíð sendi Jóab af stað með menn sína og allan Ísrael. Þeir herjuðu á Ammóníta og settust um Rabba, en Davíð sat heima í Jerúsalem.
2 Nú vildi svo til eitt kvöld, að Davíð reis upp úr hvílu sinni og fór að ganga um gólf uppi á þaki konungshallarinnar. Sá hann þá ofan af þakinu konu vera að lauga sig. En konan var forkunnar fögur.
3 Þá sendi Davíð og spurðist fyrir um konuna, og var honum sagt: "Það er Batseba Elíamsdóttir, kona Úría Hetíta."
4 Og Davíð sendi menn og lét sækja hana. Og hún kom til hans, og hann lagðist með henni, því að hún hafði hreinsað sig af óhreinleika sínum. Síðan fór hún aftur heim til sín.
5 En konan var þunguð orðin, og hún sendi og lét Davíð vita það og mælti: "Ég er með barni."
6 Davíð gjörði þá Jóab boð: "Sendu Úría Hetíta til mín." Og Jóab sendi Úría til Davíðs.
7 En er Úría kom á hans fund, spurði Davíð, hvernig Jóab liði og hvernig honum liði og hvernig hernaðurinn gengi.
8 Því næst sagði Davíð við Úría: "Gakk þú nú heim til þín og lauga fætur þína." Gekk Úría þá burt úr konungshöllinni, og var gjöf frá konungi borin á eftir honum.
9 En Úría lagðist til hvíldar fyrir dyrum konungshallarinnar hjá öðrum þjónum herra síns, en fór ekki heim til sín.
10 Menn sögðu Davíð frá því og mæltu: "Úría er ekki farinn heim til sín." Þá sagði Davíð við Úría: "Þú ert kominn úr ferð, - hvers vegna ferð þú ekki heim til þín?"
11 Þá sagði Úría við Davíð: "Örkin og Ísrael og Júda búa í laufskálum, og herra minn Jóab og menn herra míns hafast við úti á bersvæði, - og þá ætti ég að fara heim til mín til þess að eta og drekka og hvíla hjá konu minni? Svo sannarlega sem Drottinn lifir og þú lifir, það gjöri ég ekki."
12 Þá sagði Davíð við Úría: "Vertu þá hér líka í dag, en á morgun gef ég þér fararleyfi." Var Úría þann dag í Jerúsalem.
13 Daginn eftir hafði Davíð hann í boði sínu, og hann át og drakk með honum, og hann gjörði hann drukkinn. En um kvöldið gekk hann burt og lagðist til hvíldar hjá þjónum herra síns, en fór ekki heim til sín.
14 Morguninn eftir skrifaði Davíð Jóab bréf og sendi það með Úría.
15 Í bréfinu skrifaði hann svo: "Setjið Úría fremstan í bardagann, þar sem hann er harðastur, og hörfið aftur undan frá honum, svo að hann verði ofurliði borinn og falli."
16 Jóab sat um borgina og skipaði nú Úría þar til orustu, sem hann vissi að hraustir menn voru fyrir.
17 Gjörðu borgarmenn síðan úthlaup og börðust við Jóab. Féllu þá nokkrir af liðinu, af þjónum Davíðs. Þá lét og Úría Hetíti líf sitt.
18 Þá sendi Jóab mann og lét segja Davíð, hvernig farið hefði í orustunni,
19 og hann lagði svo fyrir sendimanninn: "Þegar þú hefir sagt konungi sem greinilegast frá bardaganum,
20 og konungur þá verður reiður og segir við þig: ,Hví fóruð þér svo nærri borginni í orustu? Vissuð þér ekki að þeir mundu skjóta á yður ofan af borgarveggnum?
21 Hver felldi Abímelek Jerúbbesetsson? Kastaði ekki kona kvarnarsteini á hann ofan af borgarveggnum, svo að hann dó í Tebes? Hví fóruð þér svo nærri borgarveggnum?' - þá skalt þú segja: ,Þjónn þinn, Úría Hetíti, lét og lífið.'"
22 Síðan fór sendimaðurinn og kom og flutti Davíð allt, sem Jóab hafði fyrir hann lagt, hvernig farið hefði í orustunni. Varð þá Davíð reiður Jóab og sagði við sendimanninn: "Hví fóruð þér svo nærri borginni í orustu? Vissuð þér ekki að það mundi verða kastað á yður ofan af borgarveggnum? Hver felldi Abímelek Jerúbbesetsson? Kastaði ekki kona kvarnarsteini á hann ofan af borgarveggnum, svo að hann dó í Tebes? Hví fóruð þér svo nærri borgarveggnum?"
23 Þá sagði sendimaðurinn við Davíð: "Mennirnir voru oss yfirsterkari og voru komnir í móti oss út á bersvæði. Fyrir því urðum vér að sækja að þeim allt að borgarhliðinu.
24 En þá skutu skotmennirnir á þjóna þína niður af borgarveggnum, og féllu þá nokkrir af mönnum konungs, og þjónn þinn, Úría Hetíti, lét og lífið."
25 Þá sagði Davíð við sendimanninn: "Svo skalt þú segja Jóab: ,Láttu þetta ekki á þig fá, því að sverðið verður ýmist þessum eða hinum að bana. Sæk þú vasklega að borginni og brjót hana' - og teldu þannig hug í hann."
26 En er kona Úría frétti, að maður hennar Úría var fallinn, harmaði hún bónda sinn.
27 En þegar sorgardagarnir voru liðnir, sendi Davíð og tók hana heim til sín, og hún varð kona hans og fæddi honum son. En Drottni mislíkaði það, sem Davíð hafði gjört.
Kafla 12

1 Drottinn sendi Natan til Davíðs, og Natan kom til hans og sagði við hann: "Tveir menn voru í sömu borg. Annar var ríkur, hinn fátækur.
2 Hinn ríki átti fjölda sauða og nauta,
3 en hinn fátæki átti ekki nema eitt gimbrarlamb, sem hann hafði keypt og alið. Það óx upp hjá honum og með börnum hans, það át af mat hans og drakk af bikar hans og svaf við brjóst hans og var eins og dóttir hans.
4 Þá kom gestur til ríka mannsins, og hann tímdi ekki að taka neinn af sauðum sínum eða nautum til þess að matreiða fyrir ferðamanninn, sem til hans var kominn, heldur tók gimbrarlamb fátæka mannsins og matbjó það fyrir manninn, sem kominn var til hans."
5 Þá reiddist Davíð manninum ákaflega og sagði við Natan: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir: Sá maður, sem slíkt hefir aðhafst, er dauðasekur,
6 og lambið skal hann borga sjöfaldlega, fyrst hann gjörði slíkt og hafði enga meðaumkun."
7 En Natan sagði við Davíð: "Þú ert maðurinn! Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Ég hefi smurt þig til konungs yfir Ísrael, og ég hefi frelsað þig af hendi Sáls,
8 og ég gaf þér hús herra þíns og lagði konur herra þíns upp að brjósti þér, og ég hefi fengið þér Ísraels hús og Júda - og hefði það verið of lítið, mundi ég hafa bætt einhverju við þig.
9 Hví hefir þú fyrirlitið orð Drottins með því að aðhafast það, sem honum mislíkar? Úría Hetíta hefir þú fellt með sverði. Konu hans hefir þú tekið þér fyrir konu, en sjálfan hann hefir þú myrt með sverði Ammóníta.
10 Fyrir því skal sverðið aldrei víkja burt frá húsi þínu, sakir þess að þú fyrirleist mig og tókst konu Úría Hetíta þér fyrir konu.
11 Svo segir Drottinn: Sjá, ég læt ólán koma yfir þig frá húsi þínu og tek konur þínar fyrir augunum á þér og gef þær öðrum manni, svo að hann hvíli hjá konum þínum að sólinni ásjáandi.
12 Þú hefir gjört þetta með launung, en ég mun framkvæma þetta í augsýn alls Ísraels og í augsýn sólarinnar."
13 Þá sagði Davíð við Natan: "Ég hefi syndgað móti Drottni." Natan sagði við Davíð: "Drottinn hefir og fyrirgefið þér synd þína. Þú munt ekki deyja.
14 En sakir þess, að þú hefir smánað Drottin með athæfi þínu, þá skal sá sonur, sem þér er fæddur, vissulega deyja."
15 Síðan fór Natan heim til sín. Drottinn sló barnið, sem kona Úría hafði fætt Davíð, svo að það varð sjúkt.
16 Og Davíð leitaði Guðs vegna sveinsins og fastaði, og er hann kom heim, lagðist hann til svefns á gólfinu um nóttina.
17 Þá gengu elstu mennirnir í húsi hans til hans til þess að fá hann til að rísa upp af gólfinu, en hann vildi það ekki og neytti ekki matar með þeim.
18 En á sjöunda degi dó barnið. Og þjónar Davíðs þorðu ekki að segja honum, að barnið væri dáið, því að þeir hugsuðu með sér: "Sjá, meðan barnið lifði, töluðum vér við hann, en hann ansaði oss ekki. Hvernig ættum vér þá nú að segja við hann: ,Barnið er dáið!' Hann kynni að fremja voðaverk."
19 En Davíð sá, að þjónar hans voru að hvísla hver að öðrum, og skildi hann þá, að barnið væri dáið. Og Davíð sagði við þjóna sína: "Er barnið dáið?" og þeir sögðu: "Já, það er dáið."
20 Þá stóð Davíð upp af gólfinu, laugaðist og smurði sig og hafði klæðaskipti. Síðan gekk hann í hús Drottins og baðst fyrir og fór því næst heim til sín og bað um mat. Var honum þá borinn matur, og hann neytti.
21 Þá sögðu þjónar hans við hann: "Hvað er þetta, sem þú hefir gjört? Meðan barnið lifði, fastaðir þú og grést vegna þess, en þegar barnið var dáið, stóðst þú upp og mataðist?"
22 Hann svaraði: "Meðan barnið var á lífi, fastaði ég og grét, því að ég hugsaði: ,Hver veit nema Drottinn miskunni mér, og barnið fái að lifa?'
23 En fyrst það er nú dáið, hvers vegna ætti ég þá að fasta? Mun ég geta látið það hverfa aftur? Ég fer til þess, en það kemur eigi aftur til mín."
24 Davíð huggaði Batsebu, konu sína, og hann gekk inn til hennar og lagðist með henni, og hún ól son. Og hann nefndi hann Salómon. Drottinn elskaði hann
25 og lét Natan spámann flytja þau boð, að hann skyldi heita Jedídjah vegna Drottins.
26 Jóab herjaði á Rabba, borg Ammóníta, og vann lágborgina.
27 Og hann gjörði menn til Davíðs og sagði: "Ég hefi herjað á Rabba og þegar unnið lágborgina.
28 Safna nú saman því sem eftir er af liðinu og sest um borgina og vinn hana, svo að ég vinni ekki borgina og hún verði ekki kennd við mig."
29 Þá safnaði Davíð saman öllu liðinu og fór til Rabba og herjaði á hana og vann hana.
30 Hann tók kórónu Milkóms af höfði honum. Hún vó talentu gulls, og í henni var dýrindis steinn. Davíð setti hana á höfuð sér og flutti mjög mikið herfang burt úr borginni.
31 Hann flutti og burt fólkið, sem þar var, og setti það við sagirnar, járnfleygana og járnaxirnar og lét það vinna að tígulsteinagjörð. Svo fór hann með allar borgir Ammóníta. Síðan fór Davíð ásamt öllu liðinu aftur heim til Jerúsalem.
Kafla 13

1 Nú segir frá því, að Absalon sonur Davíðs átti fríða systur, sem hét Tamar, og Amnon sonur Davíðs felldi hug til hennar.
2 Og Amnon píndist svo, að hann varð sjúkur út af Tamar, systur sinni, því að hún var mey, og Amnon virtist eigi unnt að gjöra henni neitt.
3 En Amnon átti vin, sem Jónadab hét, sonur Símea, bróður Davíðs. Jónadab þessi var mjög kænn maður.
4 Og hann sagði við Amnon: "Hví megrast þú svo, konungsson, dag frá degi? Viltu ekki segja mér það?" Amnon sagði við hann: "Ég felli hug til Tamar, systur Absalons bróður míns."
5 Þá sagði Jónadab við hann: "Leggst þú í rekkju og lát sem þú sért sjúkur, og þegar faðir þinn kemur til þess að vitja um þig, þá skaltu segja við hann: ,Lát Tamar systur mína koma og gefa mér að eta. Ef hún byggi til matinn fyrir augum mér, svo að ég gæti horft á, þá mundi ég eta úr hendi hennar.'"
6 Síðan lagðist Amnon og lést vera sjúkur. En er konungur kom að vitja um hann, sagði Amnon við konung: "Lát Tamar systur mína koma og gjöra tvær kökur að mér áhorfandi, svo að ég megi eta þær úr hendi hennar."
7 Þá sendi Davíð boð heim til Tamar og lét segja henni: "Far þú í hús Amnons bróður þíns og matreið handa honum."
8 Þá gekk Tamar í hús Amnons bróður síns, en hann lá í rúminu. Og hún tók deig og hnoðaði og gjörði úr því kökur að honum áhorfandi og bakaði kökurnar.
9 Og hún tók pönnuna og steypti úr henni frammi fyrir honum, en hann vildi ekki eta. Og Amnon mælti: "Látið alla ganga út frá mér." Og allir gengu út frá honum.
10 Þá sagði Amnon við Tamar: "Kom þú með matinn inn í svefnhúsið, svo að ég megi eta úr hendi þinni." Og Tamar tók kökurnar, sem hún hafði gjört, og færði Amnon bróður sínum inn í svefnhúsið.
11 En er hún rétti honum þær að eta, þreif hann til hennar og sagði við hana: "Kom þú og leggst með mér, systir mín!"
12 En hún sagði við hann: "Nei, bróðir minn, svívirð mig eigi, því að slíkt viðgengst ekki í Ísrael. Frem þú eigi slíka óhæfu.
13 Og hvað ætti ég af mér að gjöra með vansæmd mína? Og þú mundir talinn eitt hið versta varmenni í Ísrael. Tala þú heldur við konung, því að hann mun ekki synja þér um mig."
14 En hann vildi ekki hlýða orðum hennar, heldur lét hana kenna aflsmunar og nauðgaði henni og lagðist með henni.
15 En síðan fékk Amnon mjög mikla óbeit á henni, svo að hin mikla óbeit, er hann hafði á henni, var meiri en ástin, sem hann hafði haft á henni. Og Amnon sagði við hana: "Statt upp og haf þig á burt."
16 Þá sagði hún við hann: "Nei, bróðir minn, því að þetta væri enn meira vonskuverk en það, er þú hefir á mér framið, að senda mig nú burt." En hann vildi ekki hlýða orðum hennar.
17 Og hann kallaði á svein sinn, er þjónaði honum, og mælti: "Kom þessari konu burt frá mér út á götuna, og lokaðu dyrunum á eftir henni."
18 En hún var í dragkyrtli, því að svo voru fyrrum konungsdætur klæddar, meðan þær voru meyjar. Og þjónn hans fór með hana út á götuna og lokaði dyrunum á eftir henni.
19 Þá jós Tamar mold yfir höfuð sér og reif sundur dragkyrtilinn sem hún var í, lagði síðan hönd á höfuð sér og gekk hljóðandi burt.
20 Og Absalon bróðir hennar sagði við hana: "Hefir Amnon bróðir þinn verið með þér? Þegi þú nú, systir mín, hann er bróðir þinn. Láttu þetta ekki á þig fá." Og Tamar dvaldi ein og yfirgefin í húsi Absalons bróður síns.
21 Þegar Davíð konungur frétti allt þetta, varð hann reiður mjög, en hann vildi eigi hryggja Amnon son sinn, því að hann elskaði hann, af því að hann var frumgetningur hans.
22 En Absalon mælti eigi orð við Amnon, hvorki illt né gott, því að Absalon hataði Amnon fyrir það, að hann hafði svívirt Tamar systur hans.
23 Tveimur árum síðar bar svo við, að Absalon lét klippa sauði sína í Baal Hasór, sem er hjá Efraím, og bauð hann til öllum sonum konungs.
24 Absalon gekk og fyrir konung og mælti: "Sjá, þjónn þinn lætur nú klippa sauði sína, og bið ég að konungurinn og þjónar hans komi með þjóni þínum."
25 En konungur sagði við Absalon: "Nei, sonur minn, eigi skulum vér allir fara, svo að vér gjörum þér eigi átroðning." Og þótt Absalon legði að honum, vildi hann ekki fara, en bað hann vel fara.
26 Þá sagði Absalon: "Fyrst þú vilt ekki fara, þá leyf þú að Amnon bróðir minn fari með oss." Konungur svaraði honum: "Hví skal hann með þér fara?"
27 En Absalon lagði fast að honum. Lét hann þá Amnon fara með honum og alla konungssonu. Absalon gjörði veislu, svo sem konungsveisla væri.
28 Og hann lagði svo fyrir sveina sína: "Gefið gætur, þegar Amnon gjörist hreifur af víninu og ég segi við yður: ,Drepið Amnon!' - þá skuluð þér vega hann. Óttist ekki, það er ég, sem lagt hefi þetta fyrir yður. Verið hugrakkir og sýnið karlmennsku."
29 Og sveinar Absalons gjörðu svo við Amnon sem Absalon hafði fyrir þá lagt. Þá spruttu allir synir konungs upp, stigu á bak múlum sínum og flýðu.
30 Meðan þeir voru á leiðinni, kom sú fregn til konungs, að Absalon hefði drepið alla sonu konungs og að enginn þeirra væri eftir skilinn.
31 Þá stóð konungur upp og reif sundur klæði sín og lagðist á jörðu, og allir þjónar hans, þeir er stóðu umhverfis hann, rifu sundur klæði sín.
32 Þá tók Jónadab, sonur Símea, bróður Davíðs, til máls og sagði: "Herra minn, hugsa þú ekki, að þeir hafi drepið alla hina ungu menn, sonu konungsins, því að Amnon einn er dauður, enda vissi á illt svipurinn, sem legið hefir um munn Absalons, síðan er Amnon nauðgaði Tamar systur hans.
33 Minn herra konungurinn láti þetta því eigi á sig fá og hugsi ekki, að allir synir konungsins séu dauðir. Nei, Amnon einn er dauður."
34 Absalon flýði. En er varðsveininum varð litið upp, sá hann margt manna koma ofan fjallið á veginum til Hórónaím. Varðmaðurinn kom og sagði konungi frá og mælti: "Ég sá menn koma af veginum til Hórónaím niður undan fjallinu."
35 Þá sagði Jónadab við konung: "Sjá, þar koma synir konungsins. Svo hefir allt til gengið, sem þjónn þinn sagði."
36 Og er hann hafði lokið máli sínu, sjá, þá komu synir konungs og grétu hástöfum. Konungur og þjónar hans tóku þá að gráta ákaflega.
37 Absalon flýði og fór til Talmaí Ammíhúðssonar konungs í Gesúr. Og konungur harmaði son sinn alla daga.
38 Absalon flýði og fór til Gesúr og var þar í þrjú ár.
39 En konungur þráði að fara til Absalons, því að hann hafði huggast látið yfir því, að Amnon var dáinn.
Kafla 14

1 Og er Jóab Serújuson sá, að Absalon var konungi enn hjartfólginn,
2 þá sendi Jóab til Tekóa og lét sækja þangað vitra konu og sagði við hana: "Þú skalt láta sem þú sért harmþrungin og klæðast sorgarbúningi. Smyr þig ekki með olíu, heldur vertu eins og kona, er um langan tíma hefir syrgt látinn mann.
3 Gakk síðan fyrir konung og mæl til hans á þessa leið: -" og Jóab lagði henni orð í munn.
4 Síðan gekk konan frá Tekóa fyrir konung, féll fram á ásjónu sína til jarðar og sýndi honum lotningu og mælti: "Hjálpa mér, konungur!"
5 Konungur sagði við hana: "Hvað gengur að þér?" Hún svaraði: "Æ, ég er ekkja og maður minn er dáinn.
6 Ambátt þín átti tvo sonu. Þeir urðu missáttir úti á akri og enginn var til að skilja þá. Laust þá annar þeirra bróður sinn og drap hann.
7 Sjá, þá reis öll ættin upp á móti ambátt þinni og sagði: ,Sel fram bróðurmorðingjann, og munum vér drepa hann fyrir líf bróður hans, er hann myrti, og tortíma erfingjanum um leið.' Og þann veg vilja þeir slökkva þann neista, sem mér er eftir skilinn, svo að maðurinn minn láti hvorki eftir sig nafn né niðja á jörðinni."
8 Og konungur sagði við konuna: "Far þú heim til þín. Skipa mun ég fyrir um mál þitt."
9 En konan frá Tekóa sagði við konunginn: "Á mér hvíli sektin, minn herra konungur, og á ættfólki mínu, en konungurinn sé sýkn saka og hásæti hans."
10 Þá sagði konungur: "Ef einhver segir eitthvað við þig, þá kom þú með hann til mín, og skal hann eigi framar áreita þig."
11 Þá mælti hún: "Minnstu, konungur, Drottins, Guðs þíns, svo að hefnandinn gjöri ekki enn meira tjón, og þeir tortími ekki syni mínum." Hann svaraði: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir, skal ekki eitt hár sonar þíns falla til jarðar."
12 Þá mælti konan: "Leyf þú ambátt þinni að tala eitt orð við þig, minn herra konungur!" Hann svaraði: "Tala þú."
13 Þá mælti konan: "Hvers vegna hefir þú slíkt í hyggju gegn Guðs lýð? Og fyrst konungurinn hefir kveðið upp þennan dóm, þá er hann sem sekur maður, þar sem hann lætur ekki útlaga sinn hverfa heim aftur.
14 Því að deyja hljótum vér, og vér erum eins og vatn, sem hellt er á jörðina og eigi verður náð upp aftur, og Guð hrífur eigi burt líf þess manns, sem á það hyggur að láta ekki útlagann vera lengur útskúfaðan frá sér.
15 En fyrir því er ég komin til þess að tala þessi orð við minn herra konunginn, að fólkið gjörði mig hrædda. Þá hugsaði ambátt þín með sér: ,Ég skal tala við konunginn. Má vera að konungurinn gjöri bón ambáttar sinnar.
16 Því að konungurinn mun gjöra þá bón ambáttar sinnar að frelsa hana af hendi mannsins, sem leitast við að afmá bæði mig og son minn úr arfleifð Guðs.'
17 Þá hugsaði þerna þín með sjálfri sér: ,Orð míns herra konungsins skulu verða mér til fróunar, því að minn herra konungurinn líkist í því engli Guðs, að hann hlýðir á gott og illt.' Og Drottinn Guð þinn sé með þér."
18 Þá svaraði konungur og sagði við konuna: "Leyn þú mig engu, er ég vil spyrja þig." Konan svaraði: "Tala þú, minn herra konungur!"
19 Þá mælti konungur: "Er ekki Jóab í ráðum með þér um allt þetta?" Konan svaraði og sagði: "Svo sannarlega sem þú lifir, minn herra konungur, er eigi unnt að fara utan um nokkuð af því, sem minn herra konugurinn hefir sagt, hvorki til hægri né vinstri handar. Það var einmitt þjónn þinn Jóab, sem bauð mér þetta, og hann lagði þernu þinni öll þessi orð í munn.
20 Jóab þjónn þinn hefir gjört þetta til þess að láta málið líta öðru vísi út, en herra minn jafnast við engil Guðs að visku, svo að hann veit allt, sem við ber á jörðinni."
21 Þá sagði konungur við Jóab: "Gott og vel, ég skal gjöra það. Far þú og sæk þú sveininn Absalon."
22 Þá féll Jóab fram á andlit sitt til jarðar og laut konungi og kvaddi hann og mælti: "Nú veit þjónn þinn, að ég hefi fundið náð í augum míns herra konungsins, þar sem konungurinn hefir látið að orðum þjóns síns."
23 Síðan lagði Jóab af stað og fór til Gesúr og hafði Absalon aftur heim með sér til Jerúsalem.
24 En konungur sagði: "Fari hann heim til sín, en fyrir mín augu skal hann ekki koma." Þá fór Absalon heim til sín og kom ekki fyrir augu konungs.
25 Í öllum Ísrael var enginn maður eins fríður og Absalon, og fór mikið orð af því. Frá hvirfli til ilja voru engin lýti á honum.
26 Og þegar hann lét skera hár sitt, - en hann lét jafnan skera það á árs fresti, af því að það varð honum svo þungt, að hann hlaut að láta skera það -, þá vó hárið af höfði hans tvö hundruð sikla á konungsvog.
27 Og Absalon fæddust þrír synir og ein dóttir, er Tamar hét. Hún var kona fríð sýnum.
28 Absalon var svo tvö ár í Jerúsalem, að hann kom ekki fyrir augu konungs.
29 Þá sendi hann boð til Jóabs þess erindis, að hann færi til konungs, en Jóab vildi ekki koma til hans. Sendi hann þá í annað sinn, en hann vildi ekki koma.
30 Þá sagði Absalon við þjóna sína: "Sjáið, Jóab á akur áfastan við minn og þar hefir hann bygg. Farið og kveikið í honum." Og þjónar Absalons kveiktu í akrinum.
31 Þá fór Jóab af stað og kom í hús Absalons og sagði við hann: "Hví hafa þjónar þínir kveikt í akri mínum?"
32 Absalon sagði við Jóab: "Sjá, ég sendi boð til þín og lét segja: ,Kom þú hingað og vil ég senda þig til konungs með þessa orðsending: Til hvers kom ég frá Gesúr? Betra væri mér að vera þar enn. En nú vil ég fá að koma fyrir augu konungs. Sé ég sekur, þá drepi hann mig.'"
33 Þá gekk Jóab fyrir konung og sagði honum þetta. Lét hann þá kalla Absalon, og gekk hann fyrir konung og laut á andlit sitt til jarðar fyrir konungi. Og konungur kyssti Absalon.
Kafla 15

1 Eftir þetta bar það til, að Absalon fékk sér vagna og hesta og fimmtíu menn, sem fyrir honum hlupu.
2 Og hann lagði það í vana sinn að nema staðar snemma morguns við veginn, sem lá inn að borgarhliðinu. Og hann kallaði á hvern þann mann, er í máli átti og fyrir því leitaði á konungs fund til þess að fá úrskurð hans, og mælti: "Frá hvaða borg ert þú?" Og segði hann: "Þjónn þinn er af einni ættkvísl Ísraels,"
3 þá sagði Absalon við hann: "Sjá, málefni þitt er gott og rétt, en konungur hefir engan sett, er veiti þér áheyrn."
4 Og Absalon sagði: "Ég vildi óska að ég væri skipaður dómari í landinu, svo að hver maður, sem ætti í þrætu eða hefði mál að sækja, gæti komið til mín. Þá skyldi ég láta hann ná rétti sínum."
5 Og þegar einhver kom til hans til þess að lúta honum, rétti hann fram höndina, dró hann að sér og kyssti hann.
6 Svo gjörði Absalon við alla Ísraelsmenn, þá er leituðu á konungs fund til þess að fá úrskurð hans. Og þann veg stal Absalon hjörtum Ísraelsmanna.
7 Og það bar til fjórum árum síðar, að Absalon sagði við konung: "Leyf mér að fara og efna heit mitt í Hebron, það er ég hefi gjört Drottni.
8 Því að þjónn þinn gjörði svolátandi heit, þá er hann dvaldist í Gesúr á Sýrlandi: ,Ef Drottinn flytur mig aftur til Jerúsalem, þá skal ég þjóna Drottni.'"
9 Konungur svaraði honum: "Far þú í friði!" Lagði hann þá af stað og fór til Hebron.
10 En Absalon gjörði menn á laun til allra ættkvísla Ísraels með svolátandi orðsending: "Þegar þér heyrið lúðurhljóm, þá segið: ,Absalon er konungur orðinn í Hebron!'"
11 Með Absalon fóru tvö hundruð manns úr Jerúsalem, er hann kvaddi til farar með sér. Fóru þeir í grandleysi og vissu ekki, hvað undir bjó.
12 Og er Absalon var að fórnum, sendi hann eftir Akítófel Gílóníta, ráðgjafa Davíðs, til Gíló, ættborgar hans. Og samsærið magnaðist og æ fleiri og fleiri menn gengu í lið með Absalon.
13 Nú komu menn til Davíðs og sögðu honum: "Hugur Ísraelsmanna hefir snúist til Absalons."
14 Þá sagði Davíð við alla þjóna sína, þá er með honum voru í Jerúsalem: "Af stað! Vér skulum flýja, því að öðrum kosti munum vér ekki komast undan Absalon. Hraðið yður, svo að hann komi ekki skyndilega og nái oss, færi oss ógæfu að höndum og taki borgina herskildi."
15 Þjónar konungs svöruðu honum: "Alveg eins og minn herra konungurinn vill, sjá, vér erum þjónar þínir."
16 Þá lagði konungur af stað og allt hans hús með honum. En konungur lét tíu hjákonur eftir verða til þess að gæta hússins.
17 Konungur lagði af stað og allir þjónar hans með honum. Og þeir námu staðar við ysta húsið,
18 en allt fólkið og allir Kretar og Pletar gengu fram hjá honum. Enn fremur gengu allir menn Íttaís frá Gat, sex hundruð manns, er komnir voru með honum frá Gat, fram hjá í augsýn konungs.
19 Þá sagði konungur við Íttaí frá Gat: "Hvers vegna fer þú og með oss? Snú aftur og ver með hinum konunginum, því að þú ert útlendingur og meira að segja útlægur gjör úr átthögum þínum.
20 Þú komst í gær, og í dag ætti ég að fá þig til að reika um með oss, þar sem ég verð að fara þangað sem verkast vill. Snú þú aftur og haf með þér sveitunga þína. Drottinn mun auðsýna þér miskunn og trúfesti."
21 En Íttaí svaraði konungi: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir, og svo sannarlega sem minn herra konungurinn lifir: Á þeim stað, sem minn herra konungurinn verður - hvort sem það verður til dauða eða lífs, - þar mun og þjónn þinn verða."
22 Þá sagði Davíð við Íttaí: "Jæja, far þú þá fram hjá." Þá fór Íttaí frá Gat fram hjá og allir hans menn og öll börnin, sem með honum voru.
23 En allt landið grét hástöfum, meðan allt fólkið gekk fram hjá. En konungur stóð í Kídrondal, meðan allt fólkið gekk fram hjá honum í áttina til olíutrésins, sem er í eyðimörkinni.
24 Þar var og Sadók, og Abjatar og allir levítarnir með honum. Báru þeir sáttmálsörk Guðs. Og þeir settu niður örk Guðs, uns allur lýðurinn úr borginni var kominn fram hjá.
25 Og konungur sagði við Sadók: "Flyt þú örk Guðs aftur inn í borgina. Finni ég náð í augum Drottins, mun hann leiða mig heim aftur og láta mig sjá sjálfan sig og bústað sinn.
26 En ef hann hugsar svo: ,Ég hefi ekki þóknun á þér,' - þá er ég hér, gjöri hann við mig sem honum gott þykir."
27 Þá mælti konungur við Sadók höfuðprest: "Far þú aftur til borgarinnar í friði og Akímaas sonur þinn og Jónatan sonur Abjatars - báðir synir ykkar með ykkur.
28 Hyggið að! Ég ætla að hafast við hjá vöðunum í eyðimörkinni, þar til er mér kemur frá yður tíðindasögn."
29 Síðan fluttu þeir Sadók og Abjatar örk Guðs aftur til Jerúsalem og dvöldust þar.
30 Davíð gekk upp Olíufjallið. Fór hann grátandi og huldu höfði. Hann gekk berfættur, og allt fólkið, sem með honum var, huldi höfuð sín og gekk grátandi.
31 Og er Davíð bárust þau tíðindi, að Akítófel væri meðal þeirra, er samsærið höfðu gjört við Absalon, þá sagði Davíð: "Gjör þú, Drottinn, ráð Akítófels að heimsku."
32 En er Davíð var kominn efst upp á fjallið, þar sem menn voru vanir að tilbiðja Guð, þá mætti honum Húsaí Arkíti í rifnum kyrtli og með mold á höfði sér.
33 Davíð sagði við hann: "Farir þú með mér, verður þú mér til þyngsla.
34 En ef þú fer aftur til borgarinnar og segir við Absalon: ,Þér vil ég þjóna, konungur. Föður þínum hefi ég áður þjónað, en nú vil ég þjóna þér,' - þá getur þú ónýtt ráð Akítófels fyrir mig.
35 Þar hefir þú hjá þér prestana Sadók og Abjatar. Allt sem þú fréttir úr konungshöllinni, skalt þú segja prestunum Sadók og Abjatar.
36 Þeir hafa þar hjá sér báða sonu sína, Sadók Akímaas og Abjatar Jónatan. Látið þá færa mér öll þau tíðindi, sem þér fáið."
37 Síðan fór Húsaí, stallari Davíðs, til borgarinnar. Absalon fór og til Jerúsalem.
Kafla 16

1 En er Davíð var kominn spölkorn frá hæðinni, kom Síba, sveinn Mefíbósets, í móti honum með tvo söðlaða asna, klyfjaða tvö hundruð brauðum, hundrað rúsínukökum, hundrað aldinkökum og vínlegli.
2 Konungur mælti við Síba: "Hvað ætlar þú að gjöra við þetta?" Síba svaraði: "Asnarnir eru ætlaðir konungsfólkinu til reiðar, brauðin og aldinin til matar þjónustuliðinu og vínið til drykkjar þeim, er örmagnast kunna á eyðimörkinni."
3 Þá mælti konungur: "Hvar er sonur herra þíns?" Síba svaraði konungi: "Hann er kyrr í Jerúsalem, því að hann hugsaði: ,Í dag mun Ísraels hús fá mér aftur konungsríki föður míns.'"
4 Þá sagði konungur við Síba: "Sjá, allt sem Mefíbóset á, það sé þitt!" Síba mælti: "Ég hneigi mig! Mætti ég jafnan finna náð í augum þínum, minn herra konungur."
5 Þegar Davíð konungur kom til Bahúrím, kom þaðan maður af kynþætti Sáls, sem Símeí hét, Gerason. Hann kom bölvandi og ragnandi
6 og kastaði steinum að Davíð og öllum þjónum Davíðs konungs, en allt fólkið og allir kapparnir gengu til hægri og vinstri hliðar honum.
7 En Símeí komst svo að orði í formælingum sínum: "Burt, burt, blóðhundurinn og hrakmennið!
8 Nú lætur Drottinn þér í koll koma allt blóð ættar Sáls, í hvers stað þú ert konungur orðinn, og Drottinn hefir gefið konungdóminn í hendur Absalon syni þínum, og nú er ógæfan yfir þig komin, af því að þú ert blóðhundur."
9 Þá mælti Abísaí Serújuson við konung: "Hví skal þessi dauði hundur formæla mínum herra konunginum? Lát mig fara og stýfa af honum hausinn."
10 En konungur svaraði: "Hvað hefi ég saman við yður að sælda, Serújusynir? Ef hann formælir og ef Drottinn hefir sagt honum: ,Formæl Davíð!' - hver vogar þá að segja: ,Hví gjörir þú þetta?'"
11 Og Davíð sagði við Abísaí og við alla þjóna sína: "Sjá, fyrst sonur minn, sem út genginn er af lendum mínum, situr um líf mitt, hví þá ekki þessi Benjamíníti? Látið hann í friði og lofið honum að formæla, því að Drottinn hefir sagt honum það.
12 Vera má að Drottinn líti á eymd mína og bæti mér formæling hans í dag með góðu."
13 Síðan fór Davíð og menn hans leiðar sinnar, en Símeí gekk í fjallshlíðinni á hlið við hann og formælti honum í sífellu, kastaði steinum að honum og lét moldarhnausana dynja á honum.
14 Síðan kom konungur og allt fólkið, sem með honum var, uppgefið til Jórdanar og hvíldi sig þar.
15 Absalon og allir Ísraelsmenn komu til Jerúsalem og Akítófel með honum.
16 Og er Húsaí Arkíti, vinur Davíðs, kom til Absalons, sagði Húsaí við hann: "Konungurinn lifi! Konungurinn lifi!"
17 Þá sagði Absalon við Húsaí: "Er þetta kærleikur þinn til vinar þíns? Hvers vegna fórst þú ekki með vini þínum?"
18 Húsaí sagði þá við Absalon: "Nei, því að þann, sem Drottinn og þessi lýður og allir Ísraelsmenn velja, hans maður vil ég vera, og hjá honum vil ég dveljast.
19 Og í annan stað: Hverjum veiti ég þjónustu? Er það ekki syni hans? Eins og ég hefi veitt föður þínum þjónustu, svo mun ég og veita þér."
20 Þá sagði Absalon við Akítófel: "Leggið nú ráð á, hvað vér skulum gjöra!"
21 Akítófel sagði við Absalon: "Gakk þú inn til hjákvenna föður þíns, sem hann lét eftir verða til þess að gæta hallarinnar. Mun þá allur Ísrael frétta, að þú sért orðinn óþokkaður af föður þínum, og mun þá öllum þínum mönnum vaxa hugur."
22 Þá tjölduðu þeir fyrir Absalon á þakinu, og Absalon gekk inn til hjákvenna föður síns í augsýn alls Ísraels.
23 En þau ráð, er Akítófel réð, þóttu í þá daga eins góð og gild, sem gengið væri til frétta við Guð, - svo mikils máttu sín öll ráð Akítófels, bæði hjá Davíð og Absalon.
Kafla 17

1 Síðan sagði Akítófel við Absalon: "Ég ætla að velja úr tólf þúsund manns, leggja af stað og veita Davíð eftirför þegar í nótt
2 og ráðast á hann, meðan hann er þreyttur og ráðþrota, og skjóta honum skelk í bringu. Mun þá allt liðið, sem með honum er, leggja á flótta, en ég mun drepa konunginn einan.
3 Síðan mun ég leiða aftur allt fólkið til þín, eins og þegar brúður hverfur aftur til manns síns. Það er þó ekki nema einn maður, sem þú vilt feigan, en allur lýðurinn mun hafa frið."
4 Þetta ráð geðjaðist Absalon vel og öllum öldungum Ísraels.
5 Og Absalon sagði: "Kallið og á Húsaí Arkíta, svo að vér megum einnig heyra, hvað hann leggur til."
6 Þá kom Húsaí til Absalons, og Absalon sagði við hann: "Þannig hefir Akítófel talað. Eigum vér að gjöra það, sem hann segir? Ef eigi, þá tala þú!"
7 Þá sagði Húsaí við Absalon: "Ráð það, er Akítófel að þessu sinni hefir ráðið, er ekki gott."
8 Og Húsaí sagði: "Þú þekkir föður þinn og menn hans, að þeir eru hinir mestu kappar og grimmir í skapi, eins og birna á mörkinni, sem rænd er húnum sínum. Auk þess er faðir þinn maður vanur bardögum og lætur eigi fyrir berast um nætur hjá liðinu.
9 Sjá, hann mun nú hafa falið sig í einhverri gryfjunni eða einhverstaðar annars staðar. Ef nokkrir af þeim falla í fyrstu og það spyrst, munu menn segja: ,Lið það, sem fylgir Absalon, hefir beðið ósigur.'
10 Þá mun svo fara, að jafnvel hreystimennið með ljónshjartað mun láta hugfallast, því að allur Ísrael veit, að faðir þinn er hetja og þeir hraustmenni, sem með honum eru.
11 En þetta er mitt ráð: Allur Ísrael frá Dan til Beerseba skal saman safnast til þín, svo fjölmennur sem sandur á sjávarströndu, og sjálfur fer þú meðal þeirra.
12 Og ef vér þá hittum hann einhvers staðar, hvar sem hann nú kann að finnast, þá skulum vér steypa oss yfir hann, eins og dögg fellur á jörðu, og af honum og öllum þeim mönnum, sem með honum eru, skal ekki einn eftir verða.
13 Og ef hann leitar inn í einhverja borg, skal allur Ísrael bera vaði að þeirri borg, og síðan skulum vér draga hana ofan í ána, uns þar finnst ekki einu sinni steinvala."
14 Þá sagði Absalon og allir Ísraelsmenn: "Betra er ráð Húsaí Arkíta en ráð Akítófels!" Því að Drottinn hafði ákveðið að ónýta hið góða ráð Akítófels, til þess að hann gæti látið ógæfuna koma yfir Absalon.
15 Þá sagði Húsaí við prestana Sadók og Abjatar: "Það og það hefir Akítófel ráðið Absalon og öldungum Ísraels, og það og það hefi ég ráðið.
16 Sendið því sem skjótast og segið Davíð: ,Lát þú eigi fyrirberast í nótt við vöðin í eyðimörkinni, heldur far þú yfir um, svo að konungur og allt liðið, sem með honum er, tortímist ekki skyndilega.'"
17 En Jónatan og Akímaas stóðu við Rógel-lind, og stúlka nokkur var vön að fara og færa þeim tíðindin, en þeir fóru þá jafnan og sögðu Davíð konungi frá, því að þeir máttu ekki láta sjá, að þeir kæmu inn í borgina.
18 En sveinn nokkur sá þá og sagði Absalon frá. Fóru þeir þá báðir brott í skyndi og komu til húss manns nokkurs í Bahúrím, sem átti brunn í húsagarði sínum, og stigu þeir ofan í brunninn,
19 en húsfreyja tók dúk og breiddi yfir brunninn og stráði yfir grjónum, að eigi skyldi á bera.
20 Menn Absalons komu til konunnar í húsið og sögðu: "Hvar eru þeir Akímaas og Jónatan?" Konan svaraði þeim: "Þeir eru farnir yfir ána." Þeir leituðu, en fundu þá ekki, og sneru aftur til Jerúsalem.
21 En er þeir voru burt farnir, stigu Jónatan og Akímaas upp úr brunninum, héldu áfram og fluttu Davíð konungi tíðindin. Og þeir sögðu við Davíð: "Takið yður upp og farið sem skjótast yfir ána, því að þau ráð hefir Akítófel ráðið móti yður."
22 Þá tók Davíð sig upp og allt liðið, sem með honum var, og fóru yfir Jórdan. Og er lýsti af degi, var enginn sá, er ekki hefði farið yfir Jórdan.
23 En er Akítófel sá, að eigi var farið að ráðum hans, söðlaði hann asna sinn, lagði af stað og fór heim til sín í borg sína, ráðstafaði húsi sínu og hengdi sig, og lét þannig líf sitt. Var hann síðan jarðaður hjá föður sínum.
24 Davíð var kominn til Mahanaím, þegar Absalon fór yfir Jórdan, og allir Ísraelsmenn með honum.
25 Absalon hafði sett Amasa yfir herinn í stað Jóabs, en Amasa var sonur Ísmaelíta nokkurs, er Jítra hét og gengið hafði inn til Abígal, dóttur Nahas, systur Serúju, móður Jóabs.
26 Ísrael og Absalon settu herbúðir sínar í Gíleaðlandi.
27 En er Davíð kom til Mahanaím, fluttu þeir Sóbí Nahasson frá Rabba, borg Ammóníta, Makír Ammíelsson frá Lódebar og Barsillaí Gíleaðíti frá Rógelím þangað
28 hvílur, ábreiður, skálar og leirker og færðu Davíð og liðinu, sem með honum var, hveiti, bygg, mjöl, bakað korn, baunir, flatbaunir,
29 hunang, rjóma, sauði og osta úr kúamjólk til að eta, því að þeir hugsuðu: "Liðið er orðið hungrað, þreytt og þyrst á eyðimörkinni."
Kafla 18

1 Davíð kannaði nú liðið, sem með honum var, og setti yfir þá þúsundhöfðingja og hundraðshöfðinga.
2 Og Davíð skipti liðinu í þrennt. Var þriðjungur undir forustu Jóabs, þriðjungur undir forustu Abísaí Serújusonar, bróður Jóabs, og þriðjungur undir forustu Íttaí frá Gat. Og konungur sagði við liðið: "Ég er fastráðinn í að fara með yður í stríðið."
3 Liðið svaraði: "Þú skalt hvergi fara. Því að þótt vér flýjum, munu þeir eigi hirða um oss, og þótt helmingurinn af oss félli, mundu þeir ekki hirða um oss, því að þú ert sem tíu þúsundir af oss. Er og betra, að þú sért viðbúinn að koma oss til liðs úr borginni."
4 Þá sagði konungur við þá: "Svo vil ég gjöra, sem yður líst." Þá nam konungur staðar öðrumegin við borgarhliðið, en allt liðið hélt af stað, hundruðum og þúsundum saman.
5 En konungur lagði svo fyrir þá Jóab, Abísaí og Íttaí: "Farið vægilega með sveininn Absalon." Og allt liðið heyrði konung bjóða hershöfðingjunum svo um Absalon.
6 Síðan hélt liðið út til bardaga við Ísrael, og hófst orusta í Efraímskógi.
7 Biðu Ísraelsmenn þar ósigur fyrir Davíðs mönnum. Varð þar mikið mannfall á þeim degi: tuttugu þúsund manns.
8 Dreifðist bardaginn þar um allt landið, og varð skógurinn fleiri mönnum að líftjóni heldur en sverðið hafði orðið þann dag.
9 Þá vildi svo til, að Absalon rakst á menn Davíðs. Absalon reið múl einum, og rann múllinn inn undir þétt lim mikillar eikar og festist höfuð hans í eikinni. Hékk hann þar milli himins og jarðar, en múllinn, sem hann reið, rann undan honum.
10 Þetta sá maður nokkur, sagði Jóab frá því og mælti: "Sjá, ég sá Absalon hanga í eik einni."
11 Þá sagði Jóab við manninn, sem færði honum tíðindin: "Nú, fyrst þú sást hann, hví vannst þú þá ekki þegar á honum? Þá skyldi ég hafa gefið þér tíu sikla silfurs og belti."
12 Þá sagði maðurinn við Jóab: "Þó að taldir væru í lófa mér þúsund siklar silfurs, mundi ég samt ekki leggja hönd á konungsson, því að í áheyrn vorri lagði konungur svo fyrir þig, Abísaí og Íttaí: ,Gætið sveinsins Absalons.'
13 En ef ég hefði breytt sviksamlega við hann - og enginn hlutur er konungi hulinn -, þá mundir þú hafa staðið fjarri."
14 Þá sagði Jóab: "Ekki má ég þá lengur tefja hjá þér," - greip þrjú skotspjót og rak þau í brjóst Absalons. En með því að hann var enn með lífi í limi eikarinnar,
15 þustu að tíu knapar, skjaldsveinar Jóabs, og lustu Absalon til bana.
16 Þá lét Jóab þeyta lúðurinn, og liðið hætti að elta Ísrael, því að Jóab stöðvaði herinn.
17 Síðan tóku þeir Absalon, köstuðu honum í gryfju eina mikla þar í skóginum og urpu yfir hann afar mikla steindys, en allir Ísraelsmenn flýðu, hver heim til sín.
18 Absalon hafði þegar í lifanda lífi tekið merkissteininn í Kóngsdal og reist hann sér að minnisvarða, með því að hann hugsaði: "Ég á engan son til að halda uppi nafni mínu," og nefnt merkissteininn nafni sínu. Fyrir því er hann enn í dag nefndur Absalonsvarði.
19 Akímaas Sadóksson mælti: "Ég ætla að hlaupa og færa konungi fagnaðartíðindin, að Drottinn hafi rétt hluta hans á óvinum hans."
20 En Jóab sagði við hann: "Þú ert ekki maður til að flytja tíðindin í dag. Öðru sinni getur þú flutt tíðindin, en í dag getur þú ekki flutt tíðindin, því að konungsson er dauður."
21 Því næst sagði Jóab við Blálendinginn: "Far þú og seg konunginum það, sem þú hefir séð." Þá laut Blálendingurinn Jóab og hljóp af stað.
22 Akímaas Sadóksson kom enn að máli við Jóab og mælti: "Komi hvað sem koma vill: Leyf og mér að fara og hlaupa á eftir Blálendingnum." Jóab svaraði: "Til hvers viltu vera að hlaupa þetta, sonur minn, þar sem þér þó eigi munu greidd verða nein sögulaunin."
23 Hann svaraði: "Komi hvað sem koma vill: Ég hleyp." Þá sagði Jóab við hann: "Hlauptu þá!" Þá hljóp Akímaas af stað veginn yfir Jórdansléttlendið og komst á undan Blálendingnum.
24 Davíð sat milli borgarhliðanna tveggja. En sjónarvörðurinn steig upp á þak hliðsins upp á múrinn, hóf upp augu sín og sá, hvar maður kom hlaupandi einn saman.
25 Sjónarvörðurinn kallaði og sagði konungi frá því. En konungur mælti: "Ef hann fer einn saman, þá flytur hann góð tíðindi." En hinn hljóp í sífellu og bar hann óðum nær.
26 Þá sá sjónarvörðurinn annan mann koma hlaupandi. Kallaði sjónarvörðurinn þá niður í hliðið og mælti: "Þarna kemur annar maður hlaupandi einn saman." Þá mælti konungur: "Sá mun og flytja góð tíðindi."
27 Þá sagði sjónarvörðurinn: "Mér sýnist hlaup hins fyrra vera líkt hlaupi Akímaas Sadókssonar." Konungur mælti: "Hann er drengur góður og mun koma með góð tíðindi."
28 Akímaas bar þá að og mælti hann við konung: "Sit heill!" og laut á ásjónu sína til jarðar fyrir konungi og mælti: "Lofaður sé Drottinn, Guð þinn, sem framselt hefir þá menn, er upplyftu hendi sinni gegn mínum herra, konunginum."
29 Konungur mælti: "Líður sveininum Absalon vel?" Akímaas svaraði: "Ég sá mannþröng mikla, er Jóab sendi þjón þinn af stað, en ekki vissi ég hvað um var að vera."
30 Þá sagði konungur: "Gakk til hliðar og stattu þarna." Og hann gekk til hliðar og nam þar staðar.
31 Í því kom Blálendingurinn. Og Blálendingurinn sagði: "Minn herra konungurinn meðtaki þau fagnaðartíðindi, að Drottinn hefir rétt hluta þinn í dag á öllum þeim, er risið hafa í gegn þér."
32 Þá sagði konungur við Blálendinginn: "Líður sveininum Absalon vel?" Blálendingurinn mælti: "Fari svo fyrir óvinum míns herra konungsins og öllum þeim, er gegn þér rísa til að vinna þér tjón, sem sveini þessum!"
33 Þá varð konungi bilt. Gekk hann upp í þaksalinn uppi yfir hliðinu og grét. Og er hann gekk, mælti hann svo: "Sonur minn Absalon, sonur minn, sonur minn Absalon! Ó, að ég hefði dáið í þinn stað, Absalon, sonur minn, sonur minn!"
Kafla 19

1 Jóab var sagt: "Sjá, konungur grætur og harmar Absalon."
2 Snerist þá sigurinn í hryggð fyrir öllu liðinu á þeim degi, því að liðið fékk þann dag þá fregn: "Konungur tregar son sinn."
3 Þann dag læddist liðið inn í borgina, eins og sá her læðist, er sú skömm hefir hent að flýja úr orustu.
4 En konungur huldi andlit sitt, og konungur kveinaði hástöfum: "Sonur minn Absalon, Absalon sonur minn, sonur minn!"
5 Þá gekk Jóab inn í höllina fyrir konung og mælti: "Þú hefir í dag gjört opinbera hneisu öllum þjónum þínum, sem í dag hafa frelsað líf þitt, líf sona þinna og dætra, líf kvenna þinna og líf hjákvenna þinna
6 með því að sýna þeim elsku, er hata þig, og hatur þeim, er elska þig. Í dag hefir þú sýnt, að þú átt enga hershöfðingja eða þjóna, því að nú veit ég, að væri Absalon á lífi, en vér nú allir dauðir, þá mundi þér það vel líka.
7 Rís því nú upp, gakk út og tala vinsamlega við þjóna þína, því að það sver ég við Drottin, að gangir þú ekki út, mun ekki einn maður eftir verða í nótt með þér, og er þér það verra en öll ógæfa, er yfir þig hefir komið frá barnæsku þinni fram á þennan dag."
8 Þá stóð konungur upp og settist í borgarhliðið. Og er öllu liðinu var sagt: "Sjá, konungur situr í borgarhliðinu," þá gekk allt liðið fyrir konung. Nú var Ísrael flúinn, hver heim til sín.
9 Þá þráttaði lýðurinn í öllum ættkvíslum Ísraels sín í millum og sagði: "Konungur hefir frelsað oss af hendi óvina vorra, og hann hefir bjargað oss undan valdi Filista, en nú er hann flúinn úr landi undan Absalon,
10 en Absalon, sem vér smurðum til konungs yfir oss, er fallinn í orustu. Hvað dvelur yður þá að færa konunginn heim aftur?"
11 Þessi ummæli alls Ísraels bárust konungi til eyrna. En Davíð konungur sendi til prestanna Sadóks og Abjatars og lét segja þeim: "Mælið svo til öldunga Júda: ,Hvers vegna viljið þér vera manna síðastir til þess að færa konung aftur til hallar sinnar?
12 Þér eruð ættbræður mínir, þér eruð bein mitt og hold. Hvers vegna viljið þér vera síðastir til að færa konung heim aftur?'
13 Og segið Amasa: ,Sannlega ert þú bein mitt og hold - Guð láti mig gjalda þess nú og síðar, ef þú verður ekki hershöfðingi hjá mér alla ævi í stað Jóabs.'"
14 Hann sneri þannig hjörtum allra Júdamanna sem eins manns væri, svo að þeir gjörðu konungi þessi orð: "Snú þú aftur með alla menn þína."
15 Konungur sneri nú heimleiðis og kom að Jórdan, en Júdamenn komu til Gilgal til þess að fara í móti konungi og flytja konung yfir Jórdan.
16 Símeí Gerason Benjamíníti frá Bahúrím hafði hraðan á og fór ofan með Júdamönnum til móts við Davíð konung
17 og þúsund manns af Benjamín með honum. En Síba, ármaður Sáls, var ásamt fimmtán sonum sínum og tuttugu þjónum sínum kominn til Jórdanar á undan konungi.
18 Höfðu þeir farið yfir á vaðinu til þess að flytja konungsfólkið yfir og gjöra það, er honum þóknaðist. Og er konungur ætlaði að fara yfir Jórdan, féll Símeí Gerason honum til fóta
19 og mælti við hann: "Herra minn tilreikni mér ekki misgjörð mína og minnst ekki þess, er þjónn þinn gjörði illa á þeim degi, er minn herra konungurinn fór burt úr Jerúsalem, og erf það eigi við mig,
20 því að þjónn þinn veit að ég hefi syndgað, en sjá, nú er ég kominn fyrstur allra manna af Jósefs ætt til þess að ganga til móts við minn herra konunginn."
21 Þá tók Abísaí Serújuson til máls og sagði: "Ætti ekki Símeí að láta lífið fyrir það, að hann formælti Drottins smurða?"
22 Þá mælti Davíð: "Hvað hefi ég saman við yður að sælda, Serújusynir, þar sem þér í dag gjörist mótstöðumenn mínir? Ætti að lífláta nokkurn mann í Ísrael í dag? Eða veit ég eigi, að ég í dag er konungur yfir Ísrael?"
23 Síðan sagði konungur við Símeí: "Þú skalt eigi deyja." Og konungur vann honum eið að því.
24 Mefíbóset, sonarsonur Sáls, fór og ofan til móts við konung. Hafði hann eigi hirt fætur sína, greitt kamp sinn né þvegið klæði sín frá þeim degi, er konungur fór burt, til þess dags, er hann kom aftur heill á húfi.
25 Og er hann nú kom frá Jerúsalem til móts við konung, sagði konungur við hann: "Hví fórst þú ekki með mér, Mefíbóset?"
26 Hann svaraði: "Minn herra konungur, þjónn minn sveik mig. Því að ég sagði við hann: ,Söðla þú ösnu fyrir mig, svo að ég megi ríða henni og fara með konungi' - því að þjónn þinn er fótlami.
27 Og hann hefir rægt þjón þinn við minn herra konunginn. En minn herra konungurinn er sem engill Guðs, og gjör nú sem þér líkar.
28 Því að allt ættfólk föður míns átti einskis að vænta af mínum herra konunginum, nema dauðans, en þá tókst þú þjón þinn meðal mötunauta þinna. Hvaða rétt hefi ég þá framar og hvers framar að beiðast af konungi?"
29 Þá sagði konungur við hann: "Hví fjölyrðir þú enn um þetta? Ég segi: Þú og Síba skuluð skipta landinu."
30 Þá sagði Mefíbóset við konung: "Hann má jafnvel taka það allt, fyrst minn herra konungurinn er kominn heim heill á húfi."
31 Barsillaí Gíleaðíti kom og frá Rógelím og fór með konungi til Jórdan til þess að fylgja honum yfir Jórdan.
32 En Barsillaí var gamall mjög, áttræður að aldri. Hafði hann birgt konung að vistum, meðan hann dvaldist í Mahanaím, því að hann var maður vellauðugur.
33 Þá mælti konungur við Barsillaí: "Þú skalt með mér fara, og mun ég ala önn fyrir þér í ellinni hjá mér í Jerúsalem."
34 Barsillaí svaraði konungi: "Hversu mörg æviár á ég enn ólifuð, að ég skyldi fara með konungi til Jerúsalem?
35 Ég stend nú á áttræðu. Má ég lengur greina milli góðs og ills, eða mun þjónn þinn finna bragð af því, sem ég et og drekk, eða fæ ég lengur heyrt rödd söngvaranna og söngmeyjanna? Hví skyldi þjónn þinn lengur vera mínum herra konunginum til byrði?
36 Þjónn þinn vildi fylgja konunginum spölkorn, en hví vill konungur endurgjalda mér verk þetta?
37 Leyf þjóni þínum að snúa aftur, svo að ég megi deyja í borg minni, hjá gröf föður míns og móður. En hér er þjónn þinn Kímham, fari hann með mínum herra konunginum, gjör við hann slíkt er þér líkar!"
38 Þá mælti konungur: "Kímham skal með mér fara, og mun ég við hann gjöra slíkt er þér líkar, og hvað það er þú beiðist af mér, mun ég veita þér."
39 Nú fór allt liðið yfir Jórdan. Þá fór og konungur yfir. Og konungur minntist við Barsillaí og bað hann vel fara, en hann sneri aftur heim til sín.
40 Því næst fór konungur til Gilgal, og fór Kímham með honum. Allt lið Júdamanna fór með konungi, svo og helmingur af Ísraelsliðinu.
41 Og sjá, allir Ísraelsmenn komu til konungs, og þeir sögðu við konung: "Hví hafa bræður vorir, Júdamenn, stolið þér og farið með konunginn og fólk hans yfir Jórdan, og alla menn Davíðs með honum?"
42 Þá sögðu allir Júdamenn við Ísraelsmenn: "Konungur er oss skyldur. Hví reiðist þér af þessu? Höfum vér etið nokkuð af eigum konungs eða höfum vér numið hann burt?"
43 Þá svöruðu Ísraelsmenn Júdamönnum og sögðu: "Vér eigum tíu hluti í konunginum. Auk þess erum vér frumgetningurinn, en þér ekki. Hví hafið þér lítilsvirt oss? Og komum vér ekki fyrstir fram með þá ósk að færa konung heim aftur?" Og ummæli Júdamanna voru harðari en ummæli Ísraelsmanna.
Kafla 20

1 Þar var staddur óþokki nokkur, sem Seba hét Bíkríson, Benjamíníti. Hann þeytti lúðurinn og sagði: "Vér eigum enga hlutdeild í Davíð og engan erfðahlut í Ísaísyni. Hver fari heim til sín, Ísrael!"
2 Þá gengu allir Ísraelsmenn undan Davíð og á hönd Seba Bíkrísyni, en Júdamenn fóru með konungi sínum frá Jórdan til Jerúsalem.
3 Þegar Davíð kom til hallar sinnar í Jerúsalem, lét konungur taka hjákonurnar tíu, er hann hafði skilið eftir til þess að gæta hallarinnar, og setti þær í varðhald og ól þar önn fyrir þeim, en eigi hafði hann samfarir við þær. Lifðu þær þannig innibyrgðar til dauðadags sem ekkjur lifandi manna.
4 Því næst sagði konungur við Amasa: "Kalla þú saman Júdamenn áður þrjár sólir eru af lofti. Ver þá og sjálfur hér."
5 Lagði nú Amasa af stað til þess að kalla saman Júda. En er honum seinkaði fram yfir þann tíma, er til var tekinn við hann,
6 sagði Davíð við Abísaí: "Nú mun Seba Bíkríson vinna oss enn meira tjón en Absalon. Tak þú menn herra þíns og veit honum eftirför, svo að hann nái ekki víggirtum borgum og veiti oss þungar búsifjar."
7 Lögðu þá af stað með honum menn Jóabs og Kretar og Pletar og kapparnir allir. Lögðu þeir af stað frá Jerúsalem til þess að veita Seba Bíkrísyni eftirför.
8 En er þeir voru hjá stóra steininum, sem er hjá Gíbeon, mætti Amasa þeim. Jóab var klæddur brynjukufli sínum og gyrtur sverði utan yfir hann, og voru sverðsslíðrin fest við lend honum. Hljóp sverðið úr slíðrunum og féll til jarðar.
9 Þá sagði Jóab við Amasa: "Líður þér vel, bróðir minn?" Greip Jóab þá hægri hendinni í skegg Amasa, sem hann vildi kyssa hann.
10 En Amasa hafði ekki tekið eftir sverðinu, er Jóab hafði í vinstri hendi sér. Lagði Jóab því í kvið honum, svo að út féllu iðrin. Eigi lagði hann til hans aftur, því að hann var þegar dauður. Jóab og Abísaí, bróðir hans, fóru eftir Seba Bíkrísyni.
11 En einn af mönnum Jóabs stóð kyrr hjá Amasa og kallaði: "Hver sá sem hefir mætur á Jóab og aðhyllist Davíð, hann fylgi Jóab!"
12 En Amasa lá og veltist í blóði sínu á miðjum veginum, og er maðurinn sá, að allt liðið stóð kyrrt, dró hann Amasa til hliðar út af veginum og varp yfir hann klæði, er hann sá, að hver maður nam staðar, sem að honum kom.
13 En er hann hafði komið honum burt af veginum, fylgdi hver maður Jóab til þess að veita Seba Bíkrísyni eftirför.
14 Seba fór um allar ættkvíslir Ísraels, allt til Abel Bet Maaka, og allir Bíkrítar söfnuðust saman og fóru með honum.
15 En Jóab og menn hans komu og umkringdu hann í Abel Bet Maaka og hlóðu virkisvegg gegn borginni upp að varnargarðinum. Gekk nú allt liðið, er með Jóab var, sem ákafast fram í því að brjóta múrinn.
16 Þá kallaði kona nokkur vitur af borginni: "Heyrið, heyrið! Segið við Jóab: ,Kom þú hingað, ég vil tala við þig.'"
17 Þá gekk hann til hennar, og konan mælti: "Ert þú Jóab?" Hann kvað svo vera. Og hún sagði við hann: "Hlýð þú á orð ambáttar þinnar!" Hann svaraði: "Ég heyri."
18 Þá mælti hún á þessa leið: "Forðum var það haft að orðtæki: ,Spyrjið að því í Abel, og þá var málið á enda kljáð.'
19 Vér erum meðal hinna friðsömu og trúu í Ísrael, en þú leitast við að gjöreyða borg og móður í Ísrael. Hví spillir þú arfleifð Drottins?"
20 Jóab svaraði og sagði: "Það er fjarri mér! Ég vil engu spilla og engu eyða.
21 Eigi er þessu svo farið, heldur hefir maður nokkur frá Efraímfjöllum, sem Seba heitir, Bíkríson, lyft hendi sinni gegn Davíð konungi. Framseljið hann einan, og mun ég þegar hverfa frá borginni." Þá sagði konan við Jóab: "Sjá, höfði hans skal kastað verða til þín yfir múrinn."
22 Síðan talaði konan af viturleik sínum við alla borgarbúa, svo að þeir hjuggu höfuð af Seba Bíkrísyni og fleygðu því út til Jóabs. Þá lét hann blása liðinu frá borginni, og fór hver heim til sín, en Jóab sneri aftur til Jerúsalem til konungs.
23 Jóab var fyrir öllum hernum, Benaja Jójadason fyrir Kretum og Pletum.
24 Adóníram var yfir kvaðarmönnum, Jósafat Ahílúðsson var ríkisritari,
25 Seja var kanslari, Sadók og Abjatar prestar.
26 Enn fremur var Íra Jaíríti prestur hjá Davíð.
Kafla 21

1 Á dögum Davíðs varð hallæri í þrjú ár samfleytt. Gekk þá Davíð til frétta við Drottin, en Drottinn svaraði: "Á Sál og ætt hans hvílir blóðsök fyrir það, að hann drap Gíbeoníta."
2 Þá lét konungur kalla Gíbeoníta og sagði við þá - (Gíbeonítar heyrðu ekki til Ísraelsmönnum, heldur leifum Amoríta, og þótt Ísraelsmenn hefðu unnið þeim eiða, leitaðist Sál við að drepa þá, af vandlætingasemi vegna Ísraelsmanna og Júda.) -
3 Og Davíð sagði við Gíbeoníta: "Hvað á ég að gjöra fyrir yður, og með hverju á ég að friðþægja, til þess að þér blessið arfleifð Drottins?"
4 Þá sögðu Gíbeonítar við hann: "Það er ekki silfur og gull, sem vér sækjumst eftir af Sál og ætt hans, og engan mann viljum vér feigan í Ísrael." Hann svaraði: "Hvað segið þér, að ég eigi að gjöra fyrir yður?"
5 Þá sögðu þeir við konung: "Maðurinn sem eyddi oss og hugði að afmá oss, svo að vér værum ekki lengur til í öllu Ísraels landi, -
6 af niðjum hans skulu oss fengnir sjö menn, svo að vér megum bera þá út fyrir Drottin í Gíbeon á fjalli Drottins." Konungur sagði: "Ég skal fá yður þá."
7 Konungur þyrmdi þó Mefíbóset, Jónatanssyni, Sálssonar, vegna eiðs þess við Drottin, er þeir höfðu unnið hvor öðrum, Davíð og Jónatan, sonur Sáls.
8 En konungur tók báða sonu Rispu Ajasdóttur, er hún hafði fætt Sál, Armóní og Mefíbóset, og fimm sonu Merab, dóttur Sáls, er hún hafði fætt Adríel Barsillaísyni frá Mehóla,
9 og fékk þá í hendur Gíbeonítum. Og þeir báru þá út fyrir Drottin á fjallinu, svo að þeir dóu sjö saman. Voru þeir teknir af lífi fyrstu daga uppskerunnar.
10 En Rispa Ajasdóttir tók hærusekk og breiddi hann út á klettinum handa sér að hvílurúmi, frá byrjun uppskerunnar þar til er regn streymdi af himni yfir þá, og eigi leyfði hún fuglum himinsins að setjast að þeim um daga, né dýrum merkurinnar um nætur.
11 En er Davíð var sagt frá, hvað Rispa Ajasdóttir, hjákona Sáls, hafði gjört,
12 fór Davíð og sótti bein Sáls og bein Jónatans sonar hans til Jabesmanna í Gíleað, en þeir höfðu stolið þeim á torginu í Bet San, þar sem Filistar höfðu hengt þá upp, daginn sem Filistar drápu Sál á Gilbóa.
13 Hann kom þaðan með bein Sáls og bein Jónatans sonar hans. Var síðan safnað saman beinum hinna útbornu
14 og þau grafin með beinum Sáls og beinum Jónatans sonar hans í landi Benjamíns í Sela, í gröf Kíss föður hans. Var allt gjört sem konungur bauð, og eftir það líknaði Guð landinu.
15 Enn áttu Filistar ófrið við Ísrael. Fór Davíð með menn sína til þess að berjast við Filista, og varð Davíð móður.
16 Þá hugði Jisbi Benob, einn af niðjum Refaíta (spjót hans vó þrjú hundruð sikla eirs, og hann var gyrtur nýju sverði), að drepa Davíð.
17 Þá kom Abísaí Serújuson honum til hjálpar og hjó Filistann banahögg. Þá sárbændu menn Davíðs hann og sögðu: "Þú mátt eigi framar með oss fara í hernað, svo að þú slökkvir eigi lampa Ísraels."
18 Seinna tókst enn orusta hjá Gób við Filista. Þá drap Sibbekaí Húsatíti Saf, sem og var einn af niðjum Refaíta.
19 Og enn tókst orusta hjá Gób við Filista. Þá drap Elkanan, sonur Jaare Orgím frá Betlehem, Golíat frá Gat, en spjótskaft hans var sem vefjarrifur.
20 Og er enn tókst orusta hjá Gat, var þar tröllaukinn maður, er hafði sex fingur á hvorri hendi og sex tær á hvorum fæti, tuttugu og fjögur að tölu. Var hann og kominn af Refaítum.
21 Hann smánaði Ísrael, en Jónatan sonur Símea, bróður Davíðs, drap hann.
22 Þessir fjórir voru komnir af Refaítum í Gat, og féllu þeir fyrir Davíð og mönnum hans.
Kafla 22

1 Davíð flutti Drottni orð þessa ljóðs, þá er Drottinn frelsaði hann af hendi allra óvina hans og af hendi Sáls.
2 Hann mælti: Drottinn er bjarg mitt og vígi, hann er sá sem hjálpar mér.
3 Guð minn er hellubjarg mitt, þar sem ég leita hælis, skjöldur minn og horn hjálpræðis míns, háborg mín og hæli, frelsari minn, sem frelsar mig frá ofbeldi.
4 Lofaður sé Drottinn, hrópa ég, og ég frelsast frá óvinum mínum.
5 Brimöldur dauðans umkringdu mig, elfur glötunarinnar skelfdu mig,
6 snörur Heljar luktu um mig, möskvar dauðans féllu yfir mig.
7 Í angist minni kallaði ég á Drottin, og til Guðs míns hrópaði ég. Í helgidómi sínum heyrði hann raust mína, óp mitt barst til eyrna honum.
8 Jörðin bifaðist og nötraði, undirstöður fjallanna skulfu, þær bifuðust, því að hann var reiður.
9 Reykur gekk fram úr nösum hans og eyðandi eldur af munni hans, glóðir brunnu út frá honum.
10 Hann sveigði himininn og steig niður, og skýsorti var undir fótum hans.
11 Hann steig á bak kerúb og flaug af stað og sveif á vængjum vindarins.
12 Hann gjörði myrkrið í kringum sig að skýli, regnsortann og skýþykknið.
13 Frá ljómanum fyrir honum flugu hagl og eldglæringar.
14 Drottinn þrumaði af himni, hinn hæsti lét raust sína gjalla.
15 Hann skaut örvum sínum og tvístraði þeim, lét eldingarnar leiftra og hræddi þá.
16 Þá sá í mararbotn, og undirstöður jarðarinnar urðu berar fyrir ógnum Drottins, fyrir andgustinum úr nösum hans.
17 Hann seildist niður af hæðum og greip mig, dró mig upp úr hinum miklu vötnum.
18 Hann frelsaði mig frá hinum sterku óvinum mínum, frá fjandmönnum mínum, er voru mér yfirsterkari.
19 Þeir réðust á mig á mínum óheilladegi, en Drottinn var mín stoð.
20 Hann leiddi mig út á víðlendi, hann frelsaði mig, af því að hann hafði þóknun á mér.
21 Drottinn fór með mig eftir réttlæti mínu, eftir hreinleik handa minna galt hann mér,
22 því að ég hefi varðveitt vegu Drottins og hefi ekki reynst ótrúr Guði mínum.
23 Allar skipanir hans hefi ég fyrir augum og frá boðorðum hans hefi ég ekki vikið.
24 Ég var lýtalaus fyrir honum og gætti mín við misgjörðum.
25 Drottinn galt mér eftir réttlæti mínu, eftir hreinleik handa minna fyrir augliti hans.
26 Gagnvart ástríkum ert þú ástríkur, gagnvart ráðvöndum ráðvandur,
27 gagnvart hreinum hreinn, en gagnvart rangsnúnum ert þú afundinn.
28 Þú hjálpar þjáðum lýð, en gjörir alla hrokafulla niðurlúta.
29 Já, þú ert lampi minn, Drottinn, Guð minn lýsir mér í myrkrinu.
30 Fyrir þína hjálp hleyp ég yfir virkisgrafir, fyrir hjálp Guðs míns stekk ég yfir borgarveggi.
31 Vegur Guðs er lýtalaus, orð Drottins er skírt. Skjöldur er hann öllum þeim, sem leita hælis hjá honum.
32 Því að hver er Guð, nema Drottinn, og hver er hellubjarg, utan vor Guð?
33 Sá Guð, sem gyrðir mig styrkleika og gjörir veg minn sléttan.
34 Hann gjörir fætur mína sem hindanna og veitir mér fótfestu á hæðunum.
35 Hann æfir hendur mínar til hernaðar, svo að armar mínir benda eirbogann.
36 Þú gafst mér skjöld hjálpræðis þíns, og lítillæti þitt gjörði mig mikinn.
37 Þú rýmdir til fyrir skrefum mínum og ökklar mínir riðuðu ekki.
38 Ég elti óvini mína og náði þeim, og sneri ekki aftur fyrr en ég hafði gjöreytt þeim.
39 Ég gjöreyddi þeim og molaði þá sundur, svo að þeir risu ekki upp framar og hnigu undir fætur mér.
40 Þú gyrtir mig styrkleika til ófriðarins, beygðir fjendur mína undir mig.
41 Þú lést mig sjá bak óvina minna, þeim eyddi ég, sem hata mig.
42 Þeir hrópuðu, en enginn kom til hjálpar, þeir hrópuðu til Drottins, en hann svaraði þeim ekki.
43 Ég muldi þá sem mold á jörð, tróð þá fótum sem skarn á strætum.
44 Þú frelsaðir mig úr fólkorustum, gjörðir mig að höfðingja þjóðanna. Lýður, sem ég þekkti ekki, þjónar mér.
45 Framandi menn smjaðra fyrir mér, óðara en þeir heyra mín getið, hlýða þeir mér.
46 Framandi menn dragast upp og koma skjálfandi fram úr fylgsnum sínum.
47 Lifi Drottinn, lofað sé mitt bjarg, og hátt upp hafinn sé Guð hjálpræðis míns!
48 Þú Guð, sem veittir mér hefndir og braust þjóðir undir mig,
49 sem hreifst mig úr höndum óvina minna og hófst mig yfir mótstöðumenn mína. Frá ójafnaðarmönnum frelsaðir þú mig.
50 Fyrir því vil ég vegsama þig, Drottinn, meðal þjóðanna og lofsyngja þínu nafni.
51 Hann veitir konungi sínum mikla hjálp og auðsýnir miskunn sínum smurða, Davíð og niðjum hans að eilífu.
Kafla 23

1 Þetta eru síðustu orð Davíðs: Svo mælti Davíð Ísaíson, svo mælti maðurinn, er hátt var settur, hinn smurði Jakobs Guðs, ljúflingur Ísraels ljóða.
2 Andi Drottins talaði í mér og hans orð er á minni tungu.
3 Ísraels Guð talaði, bjarg Ísraels mælti við mig: "Sá sem ríkir yfir mönnum með réttvísi, sá sem ríkir í ótta Guðs,
4 hann er eins og dagsbirtan, þegar sólin rennur upp á heiðríkju-morgni, þegar grasið sprettur í glaðasólskini eftir regn."
5 Já, er ekki hús mitt svo fyrir Guði? Því að hann hefir gjört við mig eilífan sáttmála, ákveðinn í öllum greinum og áreiðanlegan. Já, allt sem verður mér til heilla og gleði, skyldi hann ekki veita því vöxt?
6 En varmennin, þau eru öll eins og þyrnar, sem út er kastað, því að enginn tekur á þeim með hendinni.
7 Hver, sem rekst á þau, vopnast járni og spjótskafti, og í eldi munu þau brennd verða til kaldra kola.
8 Þetta eru nöfnin á köppum Davíðs: Ísbaal Hakmóníti, höfðingi hinna þriggja. Hann veifaði spjóti sínu yfir átta hundruð vegnum í einu.
9 Honum næstur er, meðal kappanna þriggja, Eleasar Dódóson, Ahóhíti. Hann var með Davíð í Pas Dammím, en Filistar höfðu safnast þar saman til orustu. En er Ísraelsmenn hörfuðu undan,
10 stóð hann fastur fyrir og barði á Filistum, uns hann varð þreyttur í hendinni, og hönd hans var kreppt um sverðið, og Drottinn veitti mikinn sigur á þeim degi. Og liðið sneri aftur með honum aðeins til rána.
11 Næstur honum er Samma Ageson, Hararíti. Filistar söfnuðust saman og fóru til Lekí, en þar var akurspilda, alsprottin flatbaunum. En er fólkið flýði fyrir Filistum,
12 nam hann staðar í spildunni miðri, náði henni og vann sigur á Filistum. Veitti Drottinn þannig mikinn sigur.
13 Einu sinni fóru þrír af höfðingjunum þrjátíu og komu til Davíðs í hamrinum, í Adúllamvíginu, en flokkur af Filistum lá í herbúðum í Refaímdal.
14 Þá var Davíð í víginu, en varðsveit Filista var þá í Betlehem.
15 Þá þyrsti Davíð og hann sagði: "Hver vill sækja mér vatn í brunninn í Betlehem, sem er þar við hliðið?"
16 Þá brutust kapparnir þrír gegnum herbúðir Filista, jusu vatni úr brunninum í Betlehem, sem þar er við hliðið, tóku það og færðu Davíð. En hann vildi ekki drekka það, heldur dreypti því Drottni til handa
17 og mælti: "Drottinn láti það vera fjarri mér að gjöra slíkt! Get ég drukkið blóð þeirra manna, sem stofnuðu lífi sínu í hættu með því að fara?" - og hann vildi ekki drekka það. Þetta gjörðu kapparnir þrír.
18 Abísaí, bróðir Jóabs, sonur Serúju, var fyrir hinum þrjátíu. Hann veifaði spjóti sínu yfir þrjú hundruð vegnum og var frægur meðal hinna þrjátíu.
19 Af hinum þrjátíu var hann í heiðri hafður og var foringi þeirra, en til jafns við þá þrjá komst hann ekki.
20 Benaja Jójadason, hraustmenni, frægur fyrir afreksverk sín, var frá Kabseel. Hann drap báða sonu Aríels frá Móab. Hann sté ofan í brunn og drap þar ljón einn dag, er snjóað hafði.
21 Hann drap og egypskan mann tröllaukinn. Egyptinn hafði spjót í hendi, en hann fór á móti honum með staf, reif spjótið úr hendi Egyptans og drap hann með hans eigin spjóti.
22 Þetta gjörði Benaja Jójadason. Hann var frægur meðal þrjátíu kappanna.
23 Af hinum þrjátíu var hann í heiðri hafður, en til jafns við þá þrjá komst hann ekki. Davíð setti hann yfir lífvörð sinn.
24 Meðal hinna þrjátíu voru: Asahel, bróðir Jóabs, Elkanan Dódóson frá Betlehem,
25 Samma frá Haród, Elíka frá Haród,
26 Heles frá Pelet, Íra Íkkesson frá Tekóa,
27 Abíeser frá Anatót, Síbbekaí frá Húsa,
28 Salmón frá Ahó, Maharaí frá Netófa,
29 Heled Baanason frá Netófa, Íttaí Ríbaíson frá Gíbeu í Benjamíns ættkvísl,
30 Benaja frá Píraton, Híddaí frá Nahale Gaas,
31 Abi Albon frá Bet Araba, Asmavet frá Bahúrím,
32 Eljahba frá Saalbón, Jasen Gúníti,
33 Jónatan Sammason frá Harar, Ahíam Sararsson frá Arar,
34 Elífelet Ahasbaíson frá Maaka, Elíam Akítófelsson frá Gíló,
35 Hesró frá Karmel, Paaraí Arkíti,
36 Jígal Natansson frá Sóba, Baní frá Gað,
37 Selek Ammóníti, Naharaí frá Beerót, skjaldsveinn Jóabs Serújusonar,
38 Íra frá Jattír, Gareb frá Jattír,
39 Úría Hetíti. Til samans þrjátíu og sjö.
Kafla 24

1 Reiði Drottins upptendraðist enn gegn Ísrael. Egndi hann þá Davíð upp í móti þeim með því að segja: "Far þú og tel Ísrael og Júda."
2 Þá sagði konungur við Jóab og hershöfðingjana, sem með honum voru: "Farið um allar ættkvíslir Ísraels frá Dan til Beerseba og teljið fólkið, til þess að ég fái að vita, hve margt fólkið er."
3 Jóab svaraði konungi: "Drottinn Guð þinn margfaldi lýðinn - hversu margir, sem þeir nú kunna að vera - hundrað sinnum og láti minn herra konunginn lifa það. En hvers vegna vill minn herra konungurinn gjöra þetta?"
4 En Jóab og hershöfðingjarnir máttu eigi gjöra annað en það, sem konungur bauð. Gekk þá Jóab og hershöfðingjarnir burt frá konungi til þess að taka manntal í Ísrael.
5 Þeir fóru yfir Jórdan og byrjuðu á Aróer og borginni, sem er í dalnum í áttina til Gað og Jaser.
6 Síðan komu þeir til Gíleað, og til lands Hetíta, í nánd við Kades. Þá komu þeir til Dan, og frá Dan beygðu þeir við í áttina til Sídon.
7 Því næst komu þeir til Týruskastala og til allra borga Hevíta og Kanaaníta, fóru síðan til suðurlandsins í Júda, til Beerseba.
8 En er þeir höfðu farið um land allt, komu þeir eftir níu mánuði og tuttugu daga til Jerúsalem.
9 Og Jóab sagði konungi töluna, sem komið hafði út við manntalið: Í Ísrael voru átta hundruð þúsundir vopnfærra manna vopnbúinna, en í Júda fimm hundruð þúsundir manns.
10 En samviskan sló Davíð, er hann hafði látið telja fólkið. Þá sagði Davíð við Drottin: "Mjög hefi ég syndgað með því, sem ég hefi gjört. En Drottinn, tak nú burt misgjörð þjóns þíns, því að mjög óviturlega hefir mér til tekist."
11 Er Davíð reis morguninn eftir, kom orð Drottins til Gaðs spámanns, sjáanda Davíðs, svolátandi:
12 "Far þú og seg við Davíð: Svo segir Drottinn: Þrjá kosti set ég þér, kjós einn af þeim, og mun ég svo við þig gjöra."
13 Þá gekk Gað til Davíðs, sagði honum frá þessu og mælti til hans: "Hvað kýst þú, að hungur komi í þrjú ár yfir land þitt, eða að þú verðir að flýja í þrjá mánuði fyrir óvinum þínum og sverðið elti þig, eða drepsótt geisi þrjá daga í landi þínu? Hugsaðu þig nú um, og sjá til, hverju ég á að svara þeim, sem sendi mig."
14 Þá sagði Davíð við Gað: "Ég er í miklum nauðum staddur. Látum oss falla í hendur Drottins, því að mikil er miskunn hans, en í manna hendur vil ég ekki falla."
15 Davíð kaus þá drepsóttina, en hveitiuppskeran stóð yfir, þegar sóttin byrjaði, og af lýðnum frá Dan til Beerseba dóu sjötíu þúsund manns.
16 En er engillinn rétti út hönd sína gegn Jerúsalem til þess að eyða hana, þá iðraði Drottin hins illa, og hann sagði við engilinn, sem eyddi fólkinu: "Nóg er að gjört! Drag nú að þér höndina!" En engill Drottins var þá hjá þreskivelli Aravna Jebúsíta.
17 Þegar Davíð sá, hversu engillinn drap niður fólkið, þá sagði hann við Drottin: "Sjá, ég hefi syndgað, og ég hefi misgjört. En þetta er hjörð mín, - hvað hefir hún gjört? Lát hönd þína leggjast á mig og ættmenn mína."
18 Þann dag kom Gað til Davíðs og mælti við hann: "Far þú og reis Drottni altari á þreskivelli Aravna Jebúsíta."
19 Og Davíð fór eftir boði Gaðs, eins og Drottinn hafði skipað.
20 Og er Aravna leit upp og sá konung og menn hans koma til sín, þá gekk hann í móti þeim og laut á ásjónu sína til jarðar fyrir konungi.
21 Og Aravna mælti: "Hví kemur minn herra konungurinn til þjóns síns?" Davíð svaraði: "Til þess að kaupa af þér þreskivöllinn, svo að ég geti reist Drottni altari og plágunni megi létta af lýðnum."
22 Aravna svaraði Davíð: "Taki minn herra konungurinn það, sem honum þóknast, og fórni. Sjá, hér eru nautin til brennifórnar og þreskisleðarnir og aktygin af nautunum til eldiviðar.
23 Allt þetta, konungur, gefur Aravna konunginum." Og Aravna mælti við konung: "Drottinn, Guð þinn, sé þér náðugur!"
24 En konungur sagði við Aravna: "Eigi svo, en kaupa vil ég það verði af þér, því að ekki vil ég færa Drottni, Guði mínum, það í brennifórnir, er ég hefi kauplaust þegið." Síðan keypti Davíð þreskivöllinn og nautin fyrir fimmtíu sikla silfurs.
25 Og Davíð reisti Drottni þar altari og fórnaði brennifórnum og heillafórnum. Og Drottinn líknaði landinu, og létti þá plágunni af Ísrael.